Íslenski boltinn

Óli Jó einn af spekingum Pepsi Max Stúkunnar í sumar: „Hef alltaf talið mig vera sér­fræðing“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ólafur verður einn af spekingum Pepsi Max Stúkunnar í sumar.
Ólafur verður einn af spekingum Pepsi Max Stúkunnar í sumar.

Hinn margfaldi Íslandsmeistari, Ólafur Jóhannesson, er á meðal þeirra spekinga sem verða Guðmundi Benediktssyni til halds og trausts í Pepsi Max Stúkunni í sumar.

Í dag var tilkynnt hvaða spekingar verða í Stúkunni í sumar. Ásamt Ólafi verða þeir Jón Þór Hauksson, Baldur Sigurðsson, Atli Viðar Björnsson, Reynir Leósson og Þorkell Máni Pétursson í settinu í sumar.

Margir ráku upp stór augu þegar tilkynnt var að Ólafur myndi setjast í spekingarsætið í sumar en hann er spenntur fyrir hlutverkinu. Hann ræddi það við Svövu Kristínu Grétarsdóttur í Sportpakka kvöldsins.

„Þetta leggst bara ljómandi vel í mig. Ég tel mig alltaf hafa verið sérfræðing en nú er ég kominn í sérfræðingasætið. Mér líst mjög vel á það,“ sagði Ólafur.

„Ég kem að segja mitt álit á þeim hlutum sem ég hef álit á.“

Hann segist spenntur fyrir mótinu og að framundan sé frábært mót, sem Valur vinni.

„Það er óvissa á mörgum stöðum. Það hefur verið COVID stopp og spurning hvernig menn koma undan því. Heilt yfir held að ég að liðin séu vel undirbúin og mótið verði geggjað.“

„Ég held að Valur vinni þetta mót.“

Hann sér fjögur lið sem geta fallið úr deildinni og að botnbaráttan verði meiri en síðustu ár.

„Undanfarin ár hafa liðin sem hafa farið niður verið áberandi lélegust en ég held að það verði breytingar á í sumar. Ég held að það verði meiri barátta og mér sýnist fjögur lið geta fallið úr þessari deild,“ sagði Ólafur.

Allt innslagið má sjá hér að neðan.

Klippa: Sportpakkinn - Óli Jó



Fleiri fréttir

Sjá meira


×