Enski boltinn

90% stuðningsmanna Tottenham vilja stjórnina burt

Valur Páll Eiríksson skrifar
Stuðningsmenn Tottenham mótmæltu stjórn félagsins fyrir leik liðsins við Southampton í miðri viku.
Stuðningsmenn Tottenham mótmæltu stjórn félagsins fyrir leik liðsins við Southampton í miðri viku. MB Media/Getty Images/Sebastian Frej

Stuðningsmannafélag Tottenham Hotspur í Lundúnum sendi frá sér yfirlýsingu í gærkvöld þar sem kallað er eftir því að stjórn félagsins segi af sér vegna hluts félagsins í stofnun ofurdeildarinnar. 90% meðlima kusu með ákalli afsagnar.

Tottenham var eitt sex enskra liða í tólf félaga hópi sem stóð að stofnunni, en hugmyndirnar voru fljótt skotnar niður af stuðningsmönnum víða um heim. Tottenham, líkt og fleiri liðanna, sögðu sig frá deildinni á þriðjudag.

Stuðningsmannafélagið, Tottenham Hotspur Supporters' Trust, sem er lýðræðislega skipuð eining með það að markmiði að treysta sambandið milli félagsins og stuðningsmanna hélt félagafund í gærkvöld þar sem ofurdeildin var tekin fyrir.

90% fundarmanna kusu þar með því að kalla eftir afsögn stjórnar félagsins. Ákallið eftir afsögn er rökstudd með eftirfarandi hætti í yfirlýsingu hópsins:

„Afleiðingar ákvörðunar þeirra um að reyna við stofnun þessarar deildar gæti nú leitt til þungra refsinga - stigafrádráttur, bann frá keppnum, fjársektir, eða aðrar refsingar,“

„Þeir tóku þátt í þessu vitandi það, og vitandi að þeir hættu á bann leikmanna frá alþjóðlegum keppnum.“

Þá segir enn fremur í yfirlýsingunni að félagið telji samband milli stuðningsmanna og félagsins vera varanlega brostið. Aðgerðirnar hafi valdið Tottenham alþjóðlegri niðurlægingu.

Mikil pressa er á Daniel Levy, stjórnarformanni Tottenham.Getty Images/Clive Rose

Erfið vika er að baki hjá félaginu þar sem José Mourinho var vikið úr sæti knattspyrnustjóra síðasta laugardag. Stuðningsmenn eygja þó ljósglætu þar sem Tottenham hefur tök á að vinna sinn fyrsta titil frá árinu 2008 er það mætir Manchester City í úrslitum enska deildabikarsins á morgun.

Úrslitaleikur Manchester City og Tottenham hefst klukkan 15:30 á morgun, sunnudag, og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.


Tengdar fréttir

Skiptar skoðanir um refsingu gegn Ofur­deildar­liðunum

Ensku úrvalsdeildarliðin 14 sem ekki komu að stofnun Ofurdeildar Evrópu íhuga nú hvort og hvernig skuli refsa þeim stóru sex sem að deildinni stóðu. Liðin sex drógu sig í hlé frá fyrirhugaðri Ofurdeild í gærkvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×