Enski boltinn

Eigandi Liverpool biðst afsökunar: „Ég brást ykkur“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
John W. Henry, eigandi Liverpool, sendi frá sér afsökunarbeiðni í morgunsárið.
John W. Henry, eigandi Liverpool, sendi frá sér afsökunarbeiðni í morgunsárið. getty/Harold Cunningham

John W. Henry, eigandi Liverpool, hefur beðið stuðningsmenn félagsins afsökunar á aðkomu félagsins að ofurdeildinni.

Liverpool var í hópi stofnmeðlima ofurdeildarinnar en dró sig út úr henni í gærkvöldi eins og hin fimm ensku félögin: Manchester United, Arsenal, Tottenham, Chelsea og Manchester City.

Í myndbandi á Twitter-síðu Liverpool í morgun baðst Henry afsökunar á því að hafa valdið stuðningsmönnum félagsins hugarangri.

„Ég vil biðja alla stuðningsmenn Liverpool afsökunar á sundrungunni sem ég skapaði síðustu tvo sólarhringa. Það þarf kannski ekki að segja það en ég segi það samt að verkefnið gat aldrei staðið án stuðnings aðdáendanna. Enginn hélt neitt annað. Undanfarna tvo sólarhringa létuð þið þá skoðun ykkar í ljós. Við heyrðum í ykkur. Ég heyrði í ykkur,“ sagði Henry.

Auk stuðningsmanna Liverpool sem bað Henry knattspyrnustjórann Jürgen Klopp, stjórnarformanninn Billy Hogan og leikmenn Liverpool afsökunar.

„Þeir bera enga ábyrgð á þessari sundrungu. Þeir urðu mest fyrir barðinu á henni og það svíður mest. Þeir elska félagið okkar og fylla okkur stolti á hverjum degi,“ sagði Henry. 

Hann kveðst þess fullviss að Liverpool geti komið sterkt til baka eftir ofurdeildaruppákomuna. Henry sagðist svo hafa brugðist stuðningsmönnum Liverpool.

„Ég vona að þið skiljið að jafnvel þegar við gerum mistök erum við að reyna að vinna með hag félagsins að leiðarljósi. Í málinu brugðumst við ykkur. Ég brást ykkur. Ég biðst aftur afsökunar og ítreka að ég einn er ábyrgur fyrir allri óþörfu neikvæðninni sem hefur komið upp undanfarna daga. Ég mun ekki gleyma því. Og þetta sýnir valdið sem stuðningsmennirnir hafa í dag og munu réttilega halda áfram að hafa,“ sagði Henry.

Hann keypti Liverpool 2010 af þeim Tom Hicks og George N. Gillett. Henry á einnig hafnaboltafélagið sögufræga Boston Red Sox.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.