Fótbolti

Fréttu af Ofur­deildinni í gær: „Það mikil­vægasta við fót­boltann eru stuðnings­mennirnir“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Stuðningsmenn Leeds mótmæltu nýrri Ofudeild með bolum sem þeir klæddust í kvöld.
Stuðningsmenn Leeds mótmæltu nýrri Ofudeild með bolum sem þeir klæddust í kvöld. Lee Smith/Getty

Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, lét allt flakka í viðtali fyrir leik Leeds og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni en sá þýski var spurður út í hina nýju Ofurdeild.

Tólf félög standa að nýrri ofurdeild sem ætlað er að koma í staðinn fyrir Meistaradeild Evrópu en Liverpool er eitt þessara liða. Sex af liðunum koma frá Englandi. Klopp var minntur á að fyrir ekki svo löngu sagðist hann ekki hafa áhuga á Ofurdeildinni.

„Tilfinningar mínar hafa ekki breyst. Það hefur ekkert breyst. Ég heyrði fyrst af þessu í gær. Ég var að undirbúa mig fyrir erfiðan leik gegn Leeds,“ sagði Klopp.

„Við fengum smá upplýsingar, en ekki mikið. Flest sem ég veit er úr blöðunum. Þetta er erfitt. Fólk er ekki ánægt og ég get skilið það.“

„Ég er 53 ára og síðan ég hef verið í atvinnufótbolta þá hefur Meistaradeildin verið starfandi. Draumurinn var alltaf að þjálfa lið þar. Ég hef ekkert á móti Meistaradeildinni.“

„Mér líkar við samkeppnina. Mér líkar við að West Ham gæti spilað í Meistaradeildinni. Ég vil ekki að það gerist því ég vil eiga möguleikann á því,“ sagði Klopp en Liverpool og West Ham berjast um fjórða sætið.

„Það mikilvægasta í fótboltanum eru stuðningsmennirnir og liðið. Við verðum að sjá til þess að ekkert komi þar upp á milli.“

Hann sagðist hafa heyrt af stuðningsmönnum sem hefðu mótmælt með borðum með áletrunum við Anfield, heimavöll Liverpool. Hann áréttaði að leikmennirnir hefðu ekki gert neitt rangt.

„Við verðum að standa saman og sýna að enginn gangi einn á þessum tímum. Á erfiðum tímapunkti verður fólk að standa saman. Leikmennirnir gerðu ekkert rangt. Ég verð að koma því á framfæri svo allir skilji það.“

Klopp skilur reiði stuðningsmanna sem mótmæltu meðal annars fyrir utan Elland Road í kvöld.

„Ég skil þetta. Ég er í erfiðri stöðu. Ég hef ekki allar upplýsingarnar og veit ekki af hverju þessi tólf félög gerðu þetta,“ sagði Klopp.

Leikur Leeds og Liverpool stendur nú yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×