Erlent

Berjast við gróðureld á Borðfjalli

Kjartan Kjartansson skrifar
Eldur logar í hlíðum Borðfjalls. Gróðureldar í fjöllum í kringum Höfðaborg eru sagðir algengir á heitum og þurrum sumrum en þeir magnast stundum upp í miklum vindi.
Eldur logar í hlíðum Borðfjalls. Gróðureldar í fjöllum í kringum Höfðaborg eru sagðir algengir á heitum og þurrum sumrum en þeir magnast stundum upp í miklum vindi. AP/Nardus Engelbrecht

Á þriðja hundrað slökkviliðsmanna frá Höfðaborg glíma nú við mikinn gróðureld sem brennur í hlíðum Borðfjalls í Suður-Afríku. Íbúar í hverfi í hlíðum fjallsins voru látnir yfirgefa heimili sín í varúðarskyni. Grunaður brennuvargur er í haldi lögreglu vegna eldsins sem kviknaði í gærmorgun.

Sterkur vindur blæs nú lífi í eldinn sem brennur enn stjórnlaust í fjallinu sem er helsta kennileiti suðurafrísku stórborgarinnar. Slökkviliðsþyrlur sem vanalega væru notaðar til að ráða niðurlögum gróðurelds sem þessa hafa ekki komist á loft vegna roksins.

Eldurinn læsti sig í nokkrar byggingar Háskólans í Höfðaborg í gær og var háskólasvæðið rýmt, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Elsta vindmilla borgarinnar sem var enn í notkun og vinsæll veitingastaður urðu fyrir skemmdum í gær. Borgaryfirvöld rýmdu hluta Vredehoek-hverfisins þegar eldurinn nálgaðist það.

Karlmaður á fertugsaldri er í haldi lögreglu, grunaður um íkveikju en ekki er ljóst hvort að hann hafi kveikt eldinn, að sögn AP-fréttastofunnar. Hann var handtekinn í gærkvöldi eftir að sást til þriggja einstaklinga sem kveiktu fleiri elda í fjallinu.

Þykkan reyk leggur yfir Höfðaborg frá eldinum sem takmarkar skyggni. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.