Fótbolti

Fær Gylfi ó­vænt tæki­færi í Meistara­deildinni vegna stofnunar ofur­deildarinnar?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði bæði mörk Everton í 2-2 jafnteflinu við Tottenham í ensku úrvalsdeildinni á föstudaginn.
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði bæði mörk Everton í 2-2 jafnteflinu við Tottenham í ensku úrvalsdeildinni á föstudaginn. epa/Clive Brunskill

Ef ensku félögunum sem eru stofnmeðlimir nýju ofurdeildarinnar verður sparkað út úr Meistaradeildinni gætu Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Everton fengið tækifæri í keppninni á næsta tímabili.

Rætt hefur verið um að Knattspyrnusamband Evrópu muni meina félögunum sem tóku þátt í að stofna ofurdeildina að taka þátt í Meistaradeildinni og jafnvel í deildakeppni sinna landa.

Sex ensk félög eru á meðal stofnmeðlima ofurdeildarinnar: Manchester United, Liverpool, Manchester City, Tottenham, Arsenal og Chelsea.

Ef þessum félögum verður sparkað út úr Meistaradeildinni fá Leicester City, West Ham United, Everton og Leeds United sæti Englands í keppninni á næsta tímabili. Þetta eru liðin í sætum þrjú, fjögur, átta og tíu í ensku úrvalsdeildinni.

Þetta myndi þýða að Gylfi fengi sitt fyrsta tækifæri í Meistaradeildinni á ferlinum. Everton komst síðast í Meistaradeildina tímabilið 2005-06 en mistókst þá að tryggja sér sæti í riðlakeppninni.

Leeds myndi spila í Meistaradeildinni í fyrsta sinn frá því um aldamótin og West Ham í fyrsta sinn í sögu félagsins. Leicester lék í fyrsta og eina sinn í Meistaradeildinni tímabilið 2016-17 og komst þá í átta liða úrslit keppninnar.

Atalanta, Napoli, Lazio og Roma yrðu fulltrúar Ítalíu í Meistaradeildinni ef Inter, AC Milan og Juventus verður sparkað úr keppninni og Sevilla, Villarreal, Real Betis og Real Sociedad tækju sæti Spánar. Real Madrid, Barcelona og Atlético Madrid eru meðal stofnmeðlima ofurdeildarinnar.

Stærstu félögin í Þýskalandi og Frakklandi, Bayern München og Paris Saint-Germain, tóku ekki þátt í að stofna ofurdeildina og eru ekki í þeim hópi, allavega eins og sakir standa.

Ofurdeildin á að vera skipuð tuttugu liðum, þar af fimmtán liðum sem eru með fastan þátttökurétt í keppninni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.