Eiríkur segir það sjálfsagt metnaðarmál að allar upplýsingar í strætisvögnum, svo sem merkingar um útganga og sérstök svæði innan vagnsins, séu á íslensku. Hann gerir engar athugasemdir við að merkingarnar skuli einnig vera til staðar á ensku, en að enskan megi alls ekki koma í stað íslensku.
Í færslu sem Eiríkur skrifar um málið á fésbókarhópnum Málspjallinu kveðst hann hafa skrifað upplýsingafulltrúa Strætó oftar en einu sinni um málið.
Fyrir þremur árum var svarið þetta: „Samkvæmt öllum gæðastöðlum þá eiga að vera leiðbeiningar á íslensku í öllum bílunum. Við þurfum greinilega að láta yfirfara alla vagnana.“ Eins og Eiríkur bendir á, er ljóst að þetta hefur ekki skilað árangri.

Að mati Eiríks verða allar upplýsingar, svo ekki sé talað um mikilvægar öryggisleiðbeiningar, að vera á íslensku. „Það er í samræmi við íslenska málstefnu og einnig málstefnu Reykjavíkurborgar,“ skrifar Eiríkur.
„Það er metnaðarleysi og til skammar fyrir fyrirtæki í eigu almennings að hafa þetta svona. Það þýðir ekkert fyrir Strætó að skjóta sér á bak við það að þetta séu vagnar í eigu verktaka – það væri auðvelt að setja í samninga ákvæði um að allar merkingar skuli vera á íslensku,“ segir Eiríkur og ítrekar um leið að hann geri engar athugasemdir við að einnig séu upplýsingar á ensku í vögnunum. Þvert á móti, sjálfsagt sé að hafa þær einnig til viðbótar við íslensku.
