Erlent

Féll í yfir­lið fyrir framan blaða­menn á AstraZene­ca-fundinum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Tanja Erichsen, yfirmaður hjá Lyfjastofnun Danmerkur.
Tanja Erichsen, yfirmaður hjá Lyfjastofnun Danmerkur. EPA/MADS CLAUS RASMUSSEN

Tanja Erichsen, yfirmaður Lyfjastofnunar Danmerkur, féll í yfirlið á blaðamannafundi heilbrigðisyfirvalda í dag, þar sem ákvörðun um að stöðva notkun á bóluefni AstraZeneca í Danmörku var til umræðu.

Atvikið hefur vakið talsverða athygli þó að danskir fjölmiðlar virðist ekki hafa gert því mjög ítarleg skil. Breska ríkisútvarpið BBC hefur hins vegar birt myndband frá fundinum, þar sem Erichsen stendur í pontu ásamt Søren Brostrøms landlækni. 

Brostrøms er með orðið þegar Erichsen fellur skyndilega í gólfið. Brostrøms og aðrir viðstaddir rjúka til og koma Erichsen til aðstoðar, sem áfram liggur á gólfinu.

Erichsen er að braggast en var flutt á sjúkrahús til skoðunar, að því er fram kemur í tilkynningu frá Lyfjastofnun. Stofnunin færir þeim sem sent hafa Erichsen batakveðjur kærar þakkir fyrir.

Lýsa yfir áhuga á birgðunum

Dönsk heilbrigðisyfirvöld tilkynntu í dag að bólusetningu með bóluefni AstraZeneca gegn kórónuveirunni yrði alfarið hætt vegna sjaldgæfra blóðtappatilfella. Danmörk er fyrsta ríkið í Evrópu sem hættir notkun efnisins en áður höfðu nokkur Evrópuríki stöðvað hana tímabundið á meðan umrædd tilfelli voru rannsökuð. Evrópska lyfjastofnunin mælir áfram með notkun efnisins.

Klippa: Yfirmaður Lyfjastofnunar Danmerkur fellur í yfirlið

Fram kom á fundinum í Kaupmannahöfn í dag að þeir sem fengið hafa fyrsta skammtinn af AstraZeneca í Danmörku bjóðist á endanum annað bóluefni. Þá sé það raunar ekki útilokað að aftur verði byrjað að bólusetja með efninu í landinu þegar fram líða stundir.

Þá greinir TV 2 frá því að Tékkland og Lettland hafi lýst yfir áhuga á að kaupa þá AstraZeneca-skammta sem Danmörk hafði tryggt sér. Þingmenn danska Íhaldsflokksins og Frjálslynda bandalagsins (Liberal Alliance) hafa lýst yfir óánægju með ákvörðun heilbrigðisyfirvalda og telja best að Danir fái að velja sjálfir hvort þeir þiggi AstraZeneca-bólusetningu. Brostrøms sló þó þann möguleika út af borðinu á blaðamannafundinum í dag.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Sér ekki fyrir sér að Íslendingar fari dönsku leiðina

Sóttvarnalæknir telur ólíklegt að notkun á bóluefni AstraZeneca verði hætt hér á landi líkt og í Danmörku. Þá þykir honum líklegt að yngra fólk sem fengið hefur fyrri skammt af AstraZeneca-efninu fái seinni skammt af bóluefni Pfizer eða Moderna.

Danir hætta alfarið notkun bóluefnis AstraZeneca

Dönsk heilbrigðisyfirvöld hafa ákveðið að hætta að nota bóluefni lyfjaframleiðandans AstraZeneca gegn kórónuveirunni. Frá þessu er greint í dönskum fjölmiðlum í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×