Erlent

Bann við þungunarrofi vegna Downs fær að standa

Kjartan Kjartansson skrifar
Samtök sem framkvæma þungunarrof eins og Planned Parenthood létu reyna á lögmæti bannsins í Ohio fyrir dómstólum.
Samtök sem framkvæma þungunarrof eins og Planned Parenthood létu reyna á lögmæti bannsins í Ohio fyrir dómstólum. AP/RIck Bowmer

Áfrýjunardómstóll í Bandaríkjunum úrskurðaði að lög sem leggja bann við þungunarrofi þegar fóstur greinist með Downs-heilkenni í Ohio megi standa. Annar áfrýjunardómstóll hafði áður fellt sambærileg lög í Arkansas úr gildi og er líklegt að bannið komi nú til kasta íhaldssams Hæstaréttar Bandaríkjanna.

Lögin í Ohio voru sett árið 2017 en samtök sem framkvæma þungunarrof í ríkinu létu reyna á lögmæti þeirra fyrir dómstólum. Læknar geta verið sviptir lækningaleyfi og verið dæmdir í allt að átján mánaða fangelsi geri þeir þungunarrof hjá konum ef Downs-greining á fóstri átti einhvern þátt í ákvörðun þeirra um þungunarrof.

Umdæmisdómstóll taldi lögin þrengja að rétti sumra kvenna til þungunarrofs áður en fóstur er orðið lífvænlegt með ólögmætum hætti. Alríkisáfrýjunardómstóll í Cincinnati sneri þeim úrskurði við. Töldu níu dómara af sextán að lögin hindruðu konur ekki í að komast í þungunarrof að verulegu leyti, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Donald Trump, fyrrverandi forseti, skipaði sex dómara við réttinn sem hefur tekið skarpa hægri beygju undanfarin ár.

Dómarinn sem skrifaði meirihlutaálitið sagði að lögin tryggðu hagsmuni Ohio-ríkis að uppræta smánun barna með Downs-heilkenni og hvetja lækna til þess að bregðast við greiningu með „umhyggju og heilun“.

Sjö dómarar sem vildu ógilda lögin bentu á að afleiðing bannsins yrði sú að læknar og þungaðar konur hættu að ræða ástæðu þess að þær veldu að gangast undir þungunarrof. Sökuðu þeir meirihlutann um að sýna dómafordæmi hæstaréttar um að konur hafi rétt til þungunarrofs fyrirlitningu.

Dómsmálaráðherra Arkansas óskaði eftir því að Hæstiréttur Bandaríkjanna tæki upp lögmæti sambærilegra laga sem voru samþykkt þar en áfrýjunardómstóll felldi úr gildi í janúar. Hæstiréttur er nú skipaður öruggum meirihluta íhaldssamra dómara. Repúblikanar og íhaldssamir aðgerðasinnar vinna nú að því að koma málum sem varða rétt kvenna til þungunarrofs fyrir dómstólinn í þeirri von að íhaldssömu dómararnir snúi við dómafordæminu sem hefur verið kennt við Roe gegn Wade.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.