Fótbolti

Gull­drengurinn Mbappé

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Neymar er mikill aðdáandi liðsfélaga síns Mbappé.
Neymar er mikill aðdáandi liðsfélaga síns Mbappé. EPA-EFE/YOAN VALAT

Brasilíumaðurinn Neymar heldur vart vatni yfir samherja sínum Kylian Mbappé og hrósaði honum út í eitt er hann ræddi við fjölmiðla fyrir leikinn gegn Bayern München í kvöld.

Í kvöld mætast Paris Saint-Germain og Bayern München í síðari leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. París gerði sér lítið fyrir og lagði Evrópumeistara Bayern í Þýskalandi og er því í góðri stöðu fyrir leik kvöldsins.

Neymar var í viðtali við France Football og þar kom hann inn á hinn magnaða Mbappé sem skoraði tvö af mörkum PSG í fyrri leik liðanna.

„Mbappé er frábær manneskja, það er alltaf stutt grínið en að sama sakpi er hann mjög tillitsamur og mjög góður við fólkið í kringum sig. Það eru forréttindi að fá að æfa og spila með honum enda er hann frábær knattspyrnumaður.  Í grunninn er hann góðhjörtuð manneskja og það er ástæðan fyrir því að við höfum náð svona vel saman frá fyrstu kynnum.“

„Hann er hugmyndaríkur, gáfaður og að sjálfsögðu sneggri en flestir. Hann er gulldrengurinn okkar,“ sagði Neymar um samherja sinn.

Mbappé er með fljótustu leikmönnum heims en það er ekki nóg að vera hraður segir sá brasilíski.

„Það skiptir engu máli hversu hraður þú ert ef þú kannt ekki að nota hraðann. Mbappé er hins vegar meðal þeirra bestu í heimi þegar kemur að því að rekja boltann,“ bætti Neymar við.

Leikur PSG og Bayern er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3 í kvöld, og leikur Chelsea og Porto á Stöð 2 Sport 2. Leikirnir hefjast kl. 19 en upphitun hefst kl. 18.15 á Stöð 2 Sport 2.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport Erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×