Innlent

Skilar tillögum í dag: Býst við svipuðum takti og eftir þriðju bylgju

Snorri Másson skrifar
Þórólfur vinnur í tillögum sem hann ætlar að skila heilbrigðisráðherra í dag.
Þórólfur vinnur í tillögum sem hann ætlar að skila heilbrigðisráðherra í dag. Vísir/vilhelm

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir leggur í dag lokahönd á minnisblað til heilbrigðisráðherra, þar sem hann setur fram sínar tillögur um áframhaldandi sóttvarnaaðgerðir frá og með fimmtudeginum, 15. apríl.

Í minnisblaðinu eru lagðar til tilslakanir.

Sóttvarnalæknir segir í samtali við fréttastofu að minnisblaðið sé svo til tilbúið. „Ég býst við að ég skili því í dag,“ segir hann. Sérðu fyrir þér einhverjar tilslakanir? „Ég geri það nú.“

Spurður hvernig megi sjá fyrir sér framhaldið segir hann að byggt verði á því hvernig farið var út úr þriðju bylgju faraldursins. 

Sama leið og eftir þriðju bylgju

„Ég held að við séum að horfa til þess sem við höfum gert áður og hvað hefur skilað árangri og hvað ekki. Við horfum til þess hvernig við komum okkur út úr þriðju bylgju,“ segir Þórólfur.

Þriðja bylgja var töluvert umfangsmeiri en sá faraldur sem geisað hefur innanlands undanfarið. Hárgreiðslustofur lokuðu til að mynda ekki nú í fjórðu bylgju, þannig að þær verða ekki fyrstar til að opna í tilslökununum núna.

Aðgerðir vegna þriðju bylgju tóku fyrst gildi í byrjun október en voru hertar í lok sama mánuðar. Um miðjan nóvember voru smávægilegar breytingar gerðar á sóttvarnaráðstöfunum hjá börnum og hárgreiðslustofur voru opnaðar í tæka tíð fyrir jólin.

Það var ekki fyrr en 10. desember sem sundlaugar voru opnaðar fyrir 50 prósent af leyfilegum hámarksfjölda staðanna og þá voru afgreiðslutímar veitingastaða og bara einnig lengdir. Mánuði síðar, 13. janúar, voru líkamsræktarstöðvar opnaðar. Sviðslistir gátu einnig hafist aftur með takmörkunum og íþróttakeppnir án áhorfenda.

Í þriðju bylgju voru skemmtistaðir, krár og spilasalir ekki leyfðir fyrr en 8. febrúar, eftir að hafa haft lokað frá því í upphafi október.

„Það verður eins og áður, að sumum finnst of harkalega farið en öðrum of hratt farið, og þannig hefur það verið,“ segir Þórólfur um þær tilslakanir sem taka gildi á fimmtudaginn.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.