Innlent

Stjórn­völd gætu gert á­ætlun um af­léttingu tak­markana sam­hliða bólu­setningu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifa
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ekkert því til fyrirstöðu að stjórnvöld birti áætlun um afléttingu samfélagslegra takmarkana samhliða bólusetningu landsmanna.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ekkert því til fyrirstöðu að stjórnvöld birti áætlun um afléttingu samfélagslegra takmarkana samhliða bólusetningu landsmanna. Vísir/Einar

Sóttvarnalæknir segir ekkert því til fyrirstöðu að stjórnvöld birti áætlun um afléttingu samfélagslegra takmarkana samhliða bólusetningu landsmanna. Hann bindur vonir við að hægt verði að slaka á aðgerðum um miðjan apríl.

Von er á níu þúsund skömmtum af bóluefninu Pfizer til landsins á morgun og verður bólusett með efninu á þriðjudag. Þá er einnig von á ótilgreindum fjölda af bóluefninu AztraZeneca í vikunni. Á miðvikudaginn er búist við 2.400 skömmtum af bóluefninu Janssen en aðeins þarf einn skammt af efninu til að veita vörn gegn Covid19.

Formaður Viðskiptaráðs vill að stjórnvöld setji fram áætlun um afléttingu samfélagslegra takmarkana samhliða bólusetningu landsmanna.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir ekkert því til fyrirstöðu en sjálfur getur hann ekki unnið eftir framtíðarspá.

„Ég sé ekkert að því að stjórnvöld komi með slíka áætlun nákvæmlega eins og þau gerðu með bólusetningarnar en það er ekki þannig sem ég vinn. Ég vinn ekki þannig að ég geti sagt, eftir mánuð þegar búið er að bólusetja 40 eða 50 prósent þá gerum við þetta eða hitt,“ sagði Þórólfur í Víglínunni á Stöð 2 í dag.

Hann segir skyldu sína að taka mið af stöðu faraldursins á hverjum tíma.

„Ég verð að koma með áætlanir sem mér finnst skynsamlegar og það getur vel verið að þær séu í andstöðu við þessar áætlanir stjórnvalda og það er þá þeirra að ákveða endanlega hvernig útfærslan verður.“

„Ég sé ekkert athugunarvert við það að stjórnvöld komi með sínar áætlanir, þau eru hvort eð er ábyrg á endanum fyrir útfærslu á sóttvarnaráðstöfunum. Ég kem bara með tillögur og síðan er það stjórnvalda að ákveða hvort þau fari eftir því eða ekki,“ segir Þórólfur.

Þórólfur sagði í Sprengisandi í morgun að hann bindi vonir við að hægt verði að slaka á aðgerðum um miðjan apríl. Fólk þurfi þó að búast við því að aðgerðir verði hertar á ný komi upp fleiri smit.


Tengdar fréttir

Þúsundir skammta af bólu­efni til landsins í vikunni

Á þriðja þúsund skammta af bóluefni Janssen eru væntanlegir hingað til lands á miðvikudaginn. Eru þetta fyrstu skammtar bóluefnisins sem sendir eru hingað til lands en um er að ræða eina bóluefnið við kórónuveirunni sem tekið hefur verið í notkun og er gefið í einni sprautu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.