Erlent

Átök brutust út eftir að lögregla skaut svartan mann til bana

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Frá friðsamlegum mótmælum við réttarhöldin yfir Derek Chauvin.
Frá friðsamlegum mótmælum við réttarhöldin yfir Derek Chauvin. epa/Craig Lassig

Til átaka kom í úthverfi bandarísku borgarinnar Minneapolis í gærkvöldi eftir að lögreglumenn skutu ungan svartan mann til bana eftir að þeir höfðu stöðvað för hans.

Gríðarleg spenna er á svæðinu en nú fara fram réttarhöld yfir lögreglumanninum Derek Chauvin sem drap George Floyd, sem leiddi til fjöldamótmæla gegn lögregluofbeldi um öll Bandaríkin. 

Floyd var drepinn í Minneapolis og þegar fregnir bárust af drápi á öðrum svörtum manni í gær hópaðist fólk saman í úthverfinu Brooklyn Center og fljótlega kom til átaka milli fólksins og lögreglunnar. 

Lögregla beitti táragasi í aðgerðum sínum að sögn Reuters-fréttastofunnar. Mótmælendur köstuðu grjóti að lögreglubifreiðum og hoppuðu ofan á þeim.

Atvikið mun hafa verið á þann veg að lögregla stöðvaði bifreið sem Daunte Wright, 20 ára, ók. Þegar í ljós kom að Wright var eftirlýstur fór hann aftur í bíl sinn og ók af stað og skaut lögregla hann þá.

Bifreiðin stöðvaðist þegar hún lenti aftan á öðrum bíl og var Wright úrskurðaður látinn á staðnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×