Erlent

Bretar fá að heim­sækja krár að nýju

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Bretar fá að heimsækja krár að nýju frá og með morgundeginum en fá þó aðeins að njóta utandyra.
Bretar fá að heimsækja krár að nýju frá og með morgundeginum en fá þó aðeins að njóta utandyra. EPA-EFE/STRINGER

Búðir, hárgreiðslustofur, líkamsræktarstöðvar og krár munu opna dyr sínar fyrir gestum í Englandi á morgun. Þetta tilkynnti Boris Johnson, forsætisráðherra, í gær. Hann sagði um stórt skref í átt að „frelsi undan oki takmarkana vegna faraldursins“ að ræða.

Hundruð þúsundir fyrirtækja þurftu að skella í lás í byrjun janúar í Englandi og hafa ekki fengið að opna dyr sínar að nýju fyrr en nú. Útgöngubann var sett á í þriðja sinn í Englandi í byrjun janúar eftir að kórónuveirutilfellum fór fjölgandi með „Kent“-afbrigðinu eins og það er kallað.

Vegna bólusetningarátaks sem hrundið var af stað í kjölfarið hefur nú meira en helmingur fullorðinna í Englandi verið bólusettur og segja heilbrigðisyfirvöld að vegna útgöngubannsins hafi dauðsföllum fækkað um 95 prósent og smitum um 90 prósent miðað við í janúar.

Í dag létust sjö af völdum kórónuveirunnar og hafa ekki svo fáir látist af völdum hennar í Englandi síðan 14. september síðastliðinn.

Samkvæmt frétt Reuters hefur efnahagsástandið í Bretlandi ekki verið jafn slæmt í þrjár aldir og er því nauðsynlegt að bresk fyrirtæki geti hafið störf að nýju. Verslunareigendur í Bretlandi eru sagðir hafa tapað um 27 milljörðum punda síðasta árið, eða um 22 þúsund milljarðar íslenskra króna.

Búðir, sem ekki eru taldar nauðsynlegar, munu fá að opna dyr sínar að nýju bæði í Englandi og Wales á morgun en munu þurfa að bíða til 26. apríl í Skotlandi.

Krár og veitingastaðir mega aðeins taka við gestum sem sitja utandyra frá morgundeginum. Gestir munu þó aðeins geta fengið sér í glas borði þeir með veigunum, alla vega til að byrja með.

Ekki má þjóna til borðs innan dyra fyrr en 17. maí hið fyrsta.


Tengdar fréttir

Slakað á sóttvarnaaðgerðum utandyra í Bretlandi

Allt að sex manns geta nú komið saman utandyra og íþróttir sem eru spilaðar úti eru aftur leyfðar eftir að slakað var verulega á sóttvarnaaðgerðum sem hafa gilt frá ársbyrjun í Bretlandi í dag. Nýjum kórónuveirusmitum hefur fækkað verulega með ströngum aðgerðum undanfarinna mánaða.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.