Erlent

Slakað á sóttvarnaaðgerðum utandyra í Bretlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Kylfingar í Telford í Englandi, frelsinu fegnir í morgun. Slakað var á sóttvarnaaðgerðum sem hafa verið í gildi undanfarna þrjá mánuði.
Kylfingar í Telford í Englandi, frelsinu fegnir í morgun. Slakað var á sóttvarnaaðgerðum sem hafa verið í gildi undanfarna þrjá mánuði. AP/Nick Potts

Allt að sex manns geta nú komið saman utandyra og íþróttir sem eru spilaðar úti eru aftur leyfðar eftir að slakað var verulega á sóttvarnaaðgerðum sem hafa gilt frá ársbyrjun í Bretlandi í dag. Nýjum kórónuveirusmitum hefur fækkað verulega með ströngum aðgerðum undanfarinna mánaða.

Um þrjátíu milljónir manna hafa nú verið bólusettir gegn veirunni í Bretlandi, um 57% allra fullorðinna landsmanna. Takmarkanir sem komið var á í byrjun þessa árs hafa einnig skilað verulegri fækkun smita.

Þrátt fyrir það hvatti Boris Johnson, forsætisráðherra, landa sína til þess að ganga hægt um gleðinnar dyr. Fólk ætti til dæmis ekki að blanda mikið geði innandyra.

Með tilslökununum í dag getur fólk frá tveimur heimilum hist utandyra í almenningsgörðum en þó aðeins sex manns að hámarki. Tennis- og golfvellir fengu að opna aftur og skipulagt íþróttastarf utandyra gat hafist aftur. Hægt er að halda brúðkaup en þó aðeins með sex gestum.

AP-fréttastofan segir að Bretar tali um daginn sem „gleðilegan mánudag“. Ekki aðeins hafi verið slakað á aðgerðum og íþróttir utandyra heimilaðar heldur geri nú óvenjuhlýtt vor. Hitinn sé sums staðar á við Suður-Spán á þessum árstíma.

Svo spenntir voru sumir að komast aftur af stað í íþróttunum að golfmót hófst eina mínútu yfir miðnætti í nótt á Morley Hayes-golfvellinum á Englandi. Þar léku kylfingar á sjö holu góðgerðamóti undir flóðljósum.

Svipaðar tilslakanir tóku gildi í Skotlandi, Wales og á Norður-Írlandi í dag. Þúsundir manna söfnuðust saman á ströndum í Wales um helgina eftir að slakað var á ferðatakmörkunum sem höfðu verið í gildi þar frá því í desember.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.