Erlent

Bólu­efni Pfizer kunni að virka verr gegn suður­afríska af­brigðinu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hundrað ára maður bólusettur með bóluefni Pfizer á hjúkrunarheimili í Tel Aviv.
Hundrað ára maður bólusettur með bóluefni Pfizer á hjúkrunarheimili í Tel Aviv. Nir Keidar/Anadolu Agency via Getty

Virkni bóluefnis Pfizer gegn svokölluðu suðurafrísku afbrigði kórónuveirunnar virðist nokkru minni en gegn öðrum afbrigðum, ef marka má niðurstöður ísraelskrar rannsóknar á bóluefninu. Útbreiðsla afbrigðisins er þó lítil í Ísrael og niðurstöður rannsóknarinnar hafa ekki verið ritrýndar.

Hátt í átta hundruð manns tóku þátt í rannsókninni. Helmingur viðfangsefna hafði fengið einn eða tvo skammta af bóluefni Pfizer fyrir fjórtán dögum eða meira þegar rannsóknin var framkvæmd, en hinn helmingurinn var óbólusettur. Allir þátttakendur áttu það sameiginlegt að hafa greinst með kórónuveiruna.

Suðurafríska afbrigðið taldi þó ekki nema um eitt prósent þeirra sem tóku þátt og voru sýktir af kórónuveirunni. Um átta sinnum fleiri bólusettir þátttakendur greindust með kórónuveiruna heldur en óbólusettir, 5,4 prósent á móti 0,7 prósent.

Það er talið benda til þess að virkni Pfizer-bóluefnisins sé minni en gegn upphaflegu afbrigði kórónuveirunnar og því breska en gegn því suðurafríska, hvers vísindalega heiti er B.1.351. Langflestir þeirra sem greinst hafa með kórónuveiruna í Ísrael að undanförnu hafa greinst með breska afbrigðið.

„Við greindum hlutfallslega fleiri tilfelli suðurafríska hjá fólki sem hafði fengið seinni skammt bóluefnisins, samanborið við óbólusetta hópinn. Þetta þýðir að suðurafríska afbrigðið getur, upp að einhverju marki, brotið sér leið í gegnum verndina sem bóluefnið veitir,“ hefur Reuters eftir Adi Stern hjá Tel Aviv-háskóla.

Vísindamennirnir að baki rannsókninni hafa þó bent á að hópurinn sem rannsóknin beindist að var fámennur og að útbreiðsla suðurafríska afbrigðisins í Ísrael væri lítil. Þá væri erfitt að álykta almennt um vernd bóluefna út frá niðurstöðum rannsóknarinnar, þar sem aðeins var litið til þeirra sem greinst höfðu með kórónuveiruna, en ekki smittíðni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×