Fótbolti

Ísak Berg­mann talinn efni­legasti leik­maður sænsku deildarinnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það er búist við miklu af Ísaki Bergmanni á komandi tímabili í Svíþjóð.
Það er búist við miklu af Ísaki Bergmanni á komandi tímabili í Svíþjóð. Norrköping

Ísak Bergmann Jóhannesson er efstur á blaði hjá Göteborgs-Posten yfir efnilegustu leikmenn sænsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu.

Ísak Bergmann vakti verðskuldaða athygli á síðustu leiktíð er hann fór á kostum með Norrköping. Þá aðeins 17 ára gamall. Hann er nú árinu eldri og ljóst að pressan verður mikil á þessum unga Skagamanni.

Í dag birti Göteborgs-Posten lista yfir efnilegustu leikmenn deildarinnar fædda árið 2000 eða síðar. Þó Ísak Bergmann sé fæddur árið 2003 þá var hann samt sem áður í efsta sæti listans sem telur 25 leikmenn.

„Þrátt fyrir að vera aðeins 18 ára gamall er Ísak Bergmann orðinn nokkuð reyndur á þessu getustigi. Hann hefur hæfileika sem fáir aðrir komast nálægt og er þegar eftir sóttur af fjölmörgum stórliðum Evrópu. Ef hann heldur áfram að þróa sinn leik er aðeins tímaspursmál hvenær eitthvað af stóru liðunum ákveður að henda fúlgum fjár í þennan gullmola,“ segir í umsögn blaðsins um Ísak.

Sænska úrvalsdeildin heft um helgina. Norrköping fær Sirius í heimsókn á sunnudag. Aron Bjarnason leikur með Sirius og þá eru þeir Finnur Tómas Pálmason og Oliver Stefánsson samherjar Ísaks hjá Norrköping.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×