Erlent

Meintur mannræningi handtekinn á Íslandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Björgvin í Noregi.
Frá Björgvin í Noregi. Vísir/Getty

Pólskur karlmaður sem var handtekinn á Íslandi um páskana hefur samþykkt að vera framseldur til Noregs. Maðurinn er grunaður um aðild að alræmdu mannráns- og líkamsárásmáli í Noregi fyrir sex árum.

Norska sjónvarpsstöðin TV2 segir að maðurinn hafi verið eftirlýstur af alþjóðalögreglunni Interpol að beiðni norskra yfirvalda. Hann hafi verið tekinn höndum á Íslandi. Hans bíður fjögurra vikna gæsluvarðhald í Noregi.

Handtaka mannsins tengist mannráni og grófri líkamsárás á Reidar Olsen, listaverkasala, í borginni Björgvin í desember árið 2015. Osen hélt því fram að mannræningjarnir hefðu ráðist á hann í bíl sínum í miðborg Björgvinjar og rænt honum. Þeir hafi síðan barið hann, hótað honum lífláti og sýnt honum gröf sem þeir kæmu honum í ef hann greiddi þeim ekki tvær milljónir norskra króna, jafnvirði um þrjátíu milljóna íslenskra króna.

Fjórum árum síðar var málið tengt við mannrán og árás á annan mann, Petter Slengesol, þetta sama ár.

Rannsókn málsins dróst á langinn en fimm árum eftir að brotin voru framin hlutu tveir pólskir karlmenn á fertugsaldri fangelsisdóma. Maðurinn sem var handtekinn á Íslandi er bróðir annars þeirra.

Annar þeirra sakfelldu hlaut fimm ára og fjögurra mánaða fangelsisdóm. Sá sem á bróðirinn sem var handtekinn á Íslandi var sýknaður af ákæru um stórfellda líkamsárás á Osen en hlaut tveggja og hálfs árs fangelsisdóm fyrir rán og líkamsárás á Slengesol.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×