Mögnuð endurkoma Man Utd í bráðfjörugum leik

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Edinson Cavani í þann mund að skora annað mark Man Utd í dag.
Edinson Cavani í þann mund að skora annað mark Man Utd í dag. vísir/Getty

Tottenham fékk Manchester United í heimsókn í stórleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni og úr varð bráðfjörugur leikur.

Eftir nokkuð rólega byrjun á leiknum fóru hlutirnir svo sannarlega að gerast á síðasta stundarfjórðungi fyrri hálfleiks og úr varð að lokum fjörugur og hörkuspennandi leikur.

Á 33.mínútu skoraði Edinson Cavani eftir góða sókn gestanna en eftir að þeir höfðu fagnað markinu innilega var markið dæmt af eftir skoðun í VAR sem úrskurðaði Scott McTominay brotlegan í aðdraganda marksins eftir viðskipti skoska miðjumannsins við Son Heung Min.

Voru leikmenn Man Utd afar ósáttir við látbragð Suður-Kóreumannsins sem virtist sárkvalinn á meðan atvikið var skoðað í VAR en var fljótur á fætur eftir að Chris Kavanagh, dómari leiksins, hafði dæmt markið af.

Það var því til að strá salti í sár gestanna þegar sjálfur Son kom Tottenham í forystu á 41.mínútu þegar hann skoraði eftir undirbúning Lucas Moura og leiddu heimamenn því í leikhléi.

Heimamönnum hélst forystan þar til á 57.mínútu þegar mark kom úr óvæntri átt hjá gestunum. Brasilíski miðjumaðurinn Fred batt þá lokahnútinn á snarpa sókn sem hann hóf sjálfur og jafnaði metin með því að fylgja á eftir skoti sem Hugo Lloris hafði varið frá Cavani.

Bæði lið fengu góð færi til að ná forystunni. Eric Dier bjargaði frábærlega þegar Paul Pogba komst nálægt því að koma gestunum í 1-2 og Dean Henderson þurfti tvisvar að hafa sig allan við í marki Man Utd, fyrst frá Son og síðar frá Harry Kane.

Það var hins vegar enginn annar en Cavani sem náði forystunni og í þetta skiptið var allt löglegt í aðdraganda marksins sem var skorað með flugskalla eftir frábæra fyrirgjöf varamannsins Mason Greenwood.

Í kjölfarið settu Tottenham fítonskraft í sóknarleikinn og komust fyrst nálægt því að jafna metin á 83.mínútu þegar Cavani bjargaði líklega marki með því að skalla boltann í stöngina og út.

Í stað þess að Tottenham tækist að jafna metin var það Greenwood sem gerði út um leikinn með marki á síðustu mínútu uppbótartímans þegar hann skoraði með góðu skoti eftir undirbúning Pogba.

Lokatölur 1-3 fyrir Man Utd.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.