Innlent

Ekkert við ferð Brynjars að gera

Snorri Másson skrifar
Þórólfur Guðnason segir sárt að sjá fólk fara á svig við tilmæli um sóttvarnir. Brynjar Níelsson er í fríi á Spáni.
Þórólfur Guðnason segir sárt að sjá fólk fara á svig við tilmæli um sóttvarnir. Brynjar Níelsson er í fríi á Spáni. Vísir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir sárt að sjá að fólk fari ekki eftir tilmælum um að sleppa ónauðsynlegum ferðum til útlanda. Brynjar Níelsson þingmaður hefur verið í fríi á Spáni, sem hann sagði í viðtali við Vísi að væri „ekki lífsnauðsynlegt eða mjög nauðsynlegt.“

„Það er leiðinlegt að sjá hvern sem er fara ekki eftir tilmælunum og það er svo sem ekki mikið meira um það að segja,“ segir Þórólfur í samtali við fréttastofu.

„Við erum ekki með neitt bann eða skilyrði. Þetta eru tilmæli til fólks og við erum að biðla til fólks um að hjálpa okkur í þessu með því að takmarka ferðir sínar erlendis. Auðvitað er það sárt að sjá það en við því er ekkert að gera,“ segir sóttvarnalæknir.

Þórólfi virðist mjög í mun um að Íslendingar haldi sig við þessi tilmæli en hann ítrekaði þau með sérstakri tilkynningu á vef Landlæknis í gær. Hann hefur einnig sagt að nú þurfi að leita annarra leiða til að varna smitum vegar inn um landamærin, eftir að dómstólar skáru úr um að skyldudvöl á sóttkvíarhóteli væri ólögmæt aðgerð.

Frí Brynjars varði í tvær vikur en hann sagði það þó ekki bara frí, enda væru veikindi í fjölskyldunni. Hann dvaldi hjá bróður sínum Gústafi yfir páskana ásamt bróður sínum Guðlaugi. Bræðurnir hafa verið í góðu yfirlæti í golfi og nældu sér meira að segja í íslenskt páskalamb í gegnum tengiliði á meginlandi Evrópu til að grilla á páskadag.

Brynjar hyggst fara í sóttkví á heimili sínu, víðs fjarri öllum sóttkvíarhótelum.


Tengdar fréttir

Brynjar á Spáni á meðan mælt er gegn ferðalögum

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er á heimleið í dag frá Spáni, þar sem hann hefur dvalið í tæpar tvær vikur í heimsókn hjá bróður sínum. Sóttvarnalæknir má hafa sína skoðun á því hvort Íslendingar ferðist að nauðsynjalausu til útlanda, segir Brynjar. 

Veirufrítt samfélag forsenda tilslakana

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að markmiðin með sóttvarnaaðgerðunum hér á landi séu nokkuð ljós, þó að þau kunni að vefjast fyrir mörgum. Stefnt er að nánast veirufríu samfélagi hér á landi, áður en hægt verður að ráðast í tilslakanir.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.