Fyrsta tölublað Action Comics kom út árið 1938 og kostaði þá tíu bandarísk sent. Í því var að finna sögu af uppruna Súpermann, síðasta syni plánetunnar Kryptons, sem er sendur til jarðarinnar þar sem hann öðlast ofurkrafta þökk sé geislum sólarinnar. Breska ríkisútvarpið BBC segir að talið sé að aðeins um hundrað eintök af blaðinu séu enn til.
Ekki var greint frá nafni kaupandans en hann er sagður tiltölulega nýr í fjárfestingum í ofurhetjusögum. Hann greiddi 3,25 milljónir dollara fyrir blaðið, jafnvirði tæpra 413 milljóna íslenskra króna. Seljandinn, sem átti eintakið aðeins í þrjú ár, hagnaðist um rúmar 127 milljónir íslenskra króna.
Með viðskiptunum á uppboðinu varð myndasögublaðið það verðmætasta sinnar tegundar í heiminum. Það er sagt hafa fundist í óaðfinnanlegu ástandi í bunka af myndasögum frá fjórða áratug síðustu aldar.