Innlent

Hraunrennslið að komast í fyrra horf

Kjartan Kjartansson skrifar
Samanlagt hraunrennsli jókst eftir að ný gossprunga opnaðist í gær en nú er rennslið að nálgast fyrra horf.
Samanlagt hraunrennsli jókst eftir að ný gossprunga opnaðist í gær en nú er rennslið að nálgast fyrra horf. Vísir/Vilhelm

Dregið hefur úr hraunflæði úr eldgosinu á Reykjanesi og er það nú svipað og dagana áður en ný gossprunga opnaðist í gær. Hraunrennslið er sagt lítið í samanburði við flest önnur gos en ákaflega stöðugt.

Í nýju mati Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands á eldgosinu í Geldingadölum kemur fram að nýjustu loftmyndir af gosinu bendi til þess að hraunrennsli sé nú óverulegt í Geldingadölum en rennsli frá nýju sprungunni sé fjórir til fimm rúmmetrar á sekúndu. Samanlagt rennsli á báðum stöðum sé um fimm til sex rúmmetrar á sekúndu.

„Aukningin sem fram kom í gær er því að mestu gengin til baka og hraunrennsli svipað og var dagana áður en nýja sprungan opnaðist,“ segir í matinu.

Hraunrennslið er sagt lítið í samanburði við flest önnur gos, en ákaflega stöðugt. Það er um einn þriðji þess sem kom að meðaltali kom upp fyrstu tíu dagana á Fimmvörðuhálsi vorið 2010, sem var þó lítið gos.

Þá er rennslið í Geldingadölum aðeins 2% af því sem var í Holuhrauni fyrstu vikur gossins. Rennslið er svipað og var að meðaltali í Surtsey eftir að hraungos hófst þar í apríl 1964 til gosloka í júní 1967. 

„Ekki er hægt að segja um nú hve lengi gosið muni standa, en þróun hraunrennslis með tíma mun gefa vísbendingar þegar fram í sækir.“


Tengdar fréttir

Framleiðni eldgossins tvöfaldast með nýju sprungunni

Nýja gossprungan sem opnaðist í Meradölum í gær er í raun viðbót við gosið í Geldingadölum sem hefur þannig tvöfaldað framleiðslu sína. Þorvaldur Þórðarson, jarðfræðingur, segir vel hugsanlegt að önnur gossprunga gæti opnast.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.