Fótbolti

Frumsýning hjá Haaland á Etihad

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Erling Braut Haaland er mættur til Manchester ásamt liðsfélögum sínum. Hávær orðrómur er um að Haaland gæti gengið til lið við Manchester City í sumar sem arftaki Sergio Aguero.
Erling Braut Haaland er mættur til Manchester ásamt liðsfélögum sínum. Hávær orðrómur er um að Haaland gæti gengið til lið við Manchester City í sumar sem arftaki Sergio Aguero. getty/Alexandre Simoes

Manchester City heldur áfram á braut sinni í leit að fernunni svokölluðu þegar Borussia Dortmund mætir í heimsókn á Etihad leikvanginn í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld.

Erling Braut Haaland hefur verið magnaður fyrir Dortmund á tímabilinu, og ýmsar sögusagnir hafa verið í gangi um að næsti viðkomustaður hans verði Manchester City.

Haaland hefur, eins og áður segir, farið á kostum með Dortmund síðan hann gekk til liðs við þá frá RB Salzburg í janúar í fyrra. Þessi tvítugi Norðmaður hefur skorað 22 mörk í 21 leik í þýsku deildinni í vetur, ásamt því að skora tíu mörk í sex leikjum í Meistaradeildinni.

Hann varð á dögunum fljótasti leikmaður í sögu Meistaradeildarinnar til að skora 20 mörk, og hefur nú skorað í sex leikjum í röð í deild þeirra bestu. Haaland gæti því orðið aðeins fimmti leikmaðurinn til að skora í sjö Meistaradeildarleikjum í röð með marki í kvöld.

Klippa: Mörk Erlings Haaland í Meistaradeildinni

Manchester City og Dortmund hafa mæst tvisvar áður, í bæði skiptin í riðlakeppni Meistaradeildarinnar tímabilið 2012-2013. Fyrri leikurinn endaði með 1-1 jafntefli á Etihad vellinum, en Dortmund fór með 1-0 sigur í Þýskalandi.

Bæði lið hafa átt í erfiðleikum með að komast áfram úr átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Dortmund gerði það síðast tímabilið 2012-2013 þegar þeir fóru alla leið í úrslitaleikinn þar sem þeir þurftu að sætta sig við silfur eftir tap gegn Bayern Munich.

Manchester City hefur tapað fjórum af seinustu fimm leikjum sínum í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar og dottið úr keppninni á þessu stigi seinustu þrjú ár samfleytt. Það verður því spennandi að sjá hvort að norski framherjinn geti lagt stein í götu City í vegferð þeirra að fernunni, og um leið heillað stjórnarmenn liðsins enn frekar sem mögulegur arftaki Sergio Aguero.

Leikur Manchester City og Dortmund hefst klukkan 19:00 á Stöð 2 Sport 3, en upphitun fyrir Meistaradeildina hefst klukkan 18:15 á Stöð 2 Sport 2.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×