Erlent

„Hefði átt að hætta um leið og Floyd hætti að berjast á móti“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Þessi mynd af George Floyd hangir fyrir utan dómshúsið í Minneapolis þar sem réttarhöldin fara fram.
Þessi mynd af George Floyd hangir fyrir utan dómshúsið í Minneapolis þar sem réttarhöldin fara fram. AP/Jim Mone

Lögreglustjórinn í Minneapolis sagði í vitnastúku í dag að Derek Chauvin, fyrrverandi lögreglumaðurinn sem er ákærður fyrir að hafa myrt George Floyd, hafi brotið reglur lögreglunnar um valdbeitingu við handtökuna á Floyd.

Medaria Arradondo, lögreglustjóri, sagði að aðferðin sem Chauvin beitti þegar hann hélt Floyd niðri hafi ekki verið í samræmi við þjálfun lögreglumanna og „alls ekki í samræmi við siðferðisleg gildi okkar.“

Chauvin og þrír lögreglumenn til viðbótar voru látnir taka pokann sinn í maí í fyrra eftir að Floyd dó í umsjá þeirra. Floyd dó við handtöku en Chauvin, sem er sá eini sem hefur verið ákærður vegna dauða hans, kraup á hálsi Floyds í níu mínútur þrátt fyrir ítrekuð mótmæli Floyds sem sagðist ekki geta andað.

Dauði Floyd fleytti af stað mótmælabylgju sem teygði anga sína um öll Bandaríkin og víðar.

„Það samræmist ekki á nokkurn hátt okkar stefnu“

Dagurinn í dag er sá sjötti sem réttarhöldin yfir Chauvin standa yfir. Talið er að þau geti varið í allt að mánuð en þegar hefur fjöldi fólks vitnað fyrir rétti, þar á meðal bráðaliðarnir sem mættu á vettvang handtökunnar.

Arradondo lýsti í dag þjálfuninni sem lögreglumenn hljóta þegar að valdbeitingu við handtöku kemur.

„Um leið og Floyd hætti að berjast á móti og sannarlega þegar það sást að hann var þjakaður og reyndi að tjá það, ætti hann að hafa hætt,“ sagði Arradondo og vísaði til valdbeitingu Chauvins.

Hann sagði að Chauvin hafi greinilega kropið á hálsi Floyds eftir að hann hætti að berjast á móti og meira að segja eftir að hann hætti að hreyfa sig.

„Það samræmist ekki á nokkurn hátt okkar stefnu, er ekki hluti af þjálfun hjá okkur og er alls ekki í samræmi við siðareglur okkar,“ sagði Arradondo.


Tengdar fréttir

Sýndu nýjar myndir af hand­töku Floyds

Ákæruvaldið í réttarhöldunum yfir Derek Chauvin, fyrrverandi lögreglumanninum sem ákærður hefur verið fyrir að hafa banað George Floyd þegar hann kraup á hálsi hans í meira en níu mínútur, sýndi kviðdómi í gær myndbönd af handtöku og dauða Floyds sem tekin voru á búkmyndavélar lögreglumanna á vettvangi.

Lýsti því hvernig Floyd grát­bað um að lífi hans yrði þyrmt

Darnella Frazier, unglingsstúlkan sem tók myndband af George Floyd á meðan lögregluþjónninn Derek Chauvin þrýsti hné sínu að hálsi hans með þeim afleiðingum að Floyd lést, segir að hann hafi grátbeðið um að lífi sínu yrði þyrmt.

„Derek Chau­vin sveik skjöld sinn“

Saksóknarar og verjendur í máli bandaríska fyrrum lögreglumannsins Dereks Chauvin, sem er ákærður fyrir morðið á George Floyd, fluttu upphafsræður sínar fyrir kviðdómi í Minneapolis í dag. Réttarhöldin yfir Chauvin eru hafin, tíu mánuðum eftir að Floyd lést þegar Chauvin kraup á hálsi hans í meira en níu mínútur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×