Enski boltinn

Sjóð­heitur Lingard: West Ham í Meistara­deildar­sæti

Anton Ingi Leifsson skrifar
Lingard hefur farið á kostum eftir að hafa komið að láni frá Man. United.
Lingard hefur farið á kostum eftir að hafa komið að láni frá Man. United. Laurence Griffiths/Getty

Jesse Lingard var magnaður er West Ham vann 3-2 sigur á Wolves á útivelli í síðasta leik helgarinnar í enska boltanum. Hamrarnir lögðu grunninn að sigrinum í fyrri hálfleik.

Það tók Lingard einungis sex mínútur að skora fyrsta markið. Eftir frábæran sprett kom lánsmaðurinn frá Man. United boltanum framhjá Rui Patricio.

Einungis átta mínútum síðar tvöfaldaði West Ham forystuna. Lingard átti þátt í markinu en hann átti frábæran snúning áður en Pablo Fornals kom svo boltanum í netið.

Ekki skánaði það fyrir Úlfana á 38. mínútu er Jarrod Bowen skoraði. Enn og aftur var það Lingard sem var arkitektinn og útilitið dökkt fyrir heimamenn.

Þeir náðu þó að laga forystuna fyrir hlé er Leander Dendoncker kom boltanum í netið eftir frábæran sprett Adama Traore á vinstri vængnum. 3-1 í hálfleik.

Leikurinn róaðist svo um munaði í síðari hálfleik. Toumas Soucek skoraði fyrir West Ham en markið var dæmt af eftir að Tékkinn hafði handleikið boltann.

Fabio Silva minnkaði muninn í 3-2 á 68. mínútu en nær komust heimamenn ekki og lokatölur 3-2.

West Ham er í fjórða sætinu með 52 stig, stigi á undan Chelsea sem er í fimmta sætinu og fjórum stigum á eftir Leicester í þriðja sætinu. Wolves er í fjórtánda sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×