Innlent

Hand­tekinn eftir að hafa brotið gegn nálgunar­banni

Sylvía Hall skrifar
Lögregla handtók mann sem hafði brotið gegn nálgunarbanni og haft í hótunum.
Lögregla handtók mann sem hafði brotið gegn nálgunarbanni og haft í hótunum. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í nótt mann sem hafði brotið gegn nálgunarbanni í Hlíðahverfi í Reykjavík. Viðkomandi hafði einnig átt í hótunum og var hann vistaður í fangaklefa.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en lögregla hafði í nógu að snúast í nótt ef marka má færslur dagbókarinnar.

Annar maður var handtekinn fyrir líkamsárás í Hafnarfirði eftir að hafa ráðist á leigubílstjóra. Maðurinn er sagður hafa verið í mjög annarlegu ástandi og var hann vistaður í fangaklefa þar sem hann bíður skýrslutöku.

Þá var nokkuð um umferðaróhöpp í gærkvöldi og í nótt, en einn ökumaður var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild til skoðunar eftir að hafa ekið á vegrið í póstnúmeri 108. Bíll ökumannsins var fluttur af vettvangi með kranabifreið. Í Garðabæ varð árekstur tveggja bíla og voru báðir óökufærir eftir áreksturinn en ökumenn sluppu ómeiddir.

Tveir ökumenn voru stöðvaðir í Kópavogi vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna, og reyndist annar hafa verið sviptur ökuréttindum. Þá var brotist inn í íbúðarhúsnæði í Kópavogi en ekki liggur fyrir hvort einhverju var stolið.

Í Grafarvogi varð svo óhapp þegar páskalamb var of lengi í ofninum. Reykræsta þurfti íbúðina í kjölfarið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×