Fótbolti

Aston Villa kom til baka og Fulham áfram í fallsæti

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Trezeguet fagnar fyrra marki sínu.
Trezeguet fagnar fyrra marki sínu. Richard Heathcote/Getty Images

Aston Villa tók stigin þrjú þegar að Fulham kom í heimsókn á Villa Park í dag. Aleksandar Mitrovic kom gestunum yfir, en Egyptinn Trezeguet skoraði tvö mörk með stuttu millibili áður en Ollie Watkins tryggði 3-1 sigur heimamanna.

Fulham þurfti nauðsynlega á sigri að halda þegar þeir heimsóttu Aston Villa í dag til að lyfta sér upp úr fallsæti.

Markalaust var þegar liðin gengu til búningsherbergja, en á 61. mínútu kom Aleksandar Mitrovic gestunum yfir.

Villa menn sóttu látlaust eftir mark gestanna, og á 78. mínútu skilaði það loksins marki. Tyrone Mings átti þá flottan sprett upp kantinn og kom honum fyrir á Trezeguet sem þakka pent fyrir sig og jafnaði leikinn.

Einungis þrem mínútum síðar var Trezeguet aftur á ferðinni, í þetta skipti eftir stoðsendingu frá Keinan Davis, og Aston Vill komnir með forystuna.

Á 87. mínútu gerðu heimamenn svo út um leikinn þegar Ollie Watkins batt endahnútinn á góða sókn þar sem Bertrand Traore fór illa með varnarmenn Fulham áður en hann gaf boltann fyrir á óvaldaðan Ollie Watkins.

Aston Villa lyftir sér með sigrinum upp fyrir Leeds og Arsenal í níunda sæti. Fulham er enn á fallsvæðinu, þrem stigum frá öruggu sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×