Fótbolti

Kjartan Henry frá næstu þrjár til fjórar vikurnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kjartan Henry [fyrir miðju] verður frá næstu 3-4 vikurnar.
Kjartan Henry [fyrir miðju] verður frá næstu 3-4 vikurnar. Esbjerg

Kjartan Henry Finnbogason, leikmaður danska knattspyrnuliðsins Esbjerg, verður frá næstu 3-4 vikurnar. Það er högg fyrir liðið sem er í harðri baráttu um að komast upp í dönsku úrvalsdeildina.

Kjartan Henry fékk högg á hnéð í leik gegn Viborg og missti hann í kjölfarið af 1-0 sigri Esbjerg á Hobro í síðasta leik dönsku B-deildarinnar áður en henni var skipt upp. Talið var að hinn 34 ára gamli framherji yrði tilbúinn að landsleikjahléinu loknu en annað hefur komið upp á daginn.

Nú er ljóst að meiðslin eru verri en fyrst var gert ráð fyrir og að framherjinn knái verður frá næstu 3-4 vikurnar. Þetta staðfesti Ólafur Kristjánsson, þjálfari liðsins, í viðtali í dag.

„Þetta er með því verra sem gat komið fyrir okkur þar sem Kjartan Henry er mjög mikilvægur hlekkur í leik okkar. Við ætlum þó ekki að eyða of miklum tíma í að velta okkur upp úr þessu. Aðrir leikmenn verða að stíga upp,“ sagði Ólafur í viðtali við JydskeVelkysten.

Kjartan Henry hefur skorað tvö mörk í fimm leikjum fyrir Esbjerg. Reikna má með því að Andri Rúnar Bjarnason taki sæti Kjartans í byrjunarliði Esbjerg næstu vikurnar.

Á morgun, mánudag, hefur Esbjerg leik í úrslitakeppninni. Liðið er sem stendur aðeins stigi á eftir Silkeborg og ljóst að það verður hart barist um sæti í dönsku úrvalsdeildarinnar á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×