Innlent

Auðvitað hugsuðum við öll „hvað ef?”

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Einn dagur stendur upp úr á þrjátíu ára ferli Ragnars Jónssonar. Sjálfur slasaðist hann eftir að hafa verið grýttur af æstum múgnum. 
Einn dagur stendur upp úr á þrjátíu ára ferli Ragnars Jónssonar. Sjálfur slasaðist hann eftir að hafa verið grýttur af æstum múgnum.  Vísir/Vilhelm

„Þetta er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma. Þó ég vilji það, og reyni það, þá er þetta bæði einn eftirminnilegasti dagur sem ég hef upplifað og einn sá erfiðasti,” segir Ragnar Jónsson rannsóknarlögreglumaður.

Tólf ár eru frá því að gríðarleg ólga ríkti í íslensku samfélagi. Fólk flykktist í miðbæ Reykjavíkur og barði í potta og pönnur of krafðist afsagnar ríkisstjórnarinnar. Úr skugga bankahrunsins birtist reið þjóð sem heimtaði breytingar og bar búsáhöld til að láta skoðun sína í ljós. Bankahrunið var nýskollið á og reiðin kraumaði í þjóðinni. Hin svokallaða búsáhaldabylting tók við.

„Það höfðu verið mótmæli og hópasöfnun á Austurvelli í marga daga áður en það kom að þessum örlagaríka degi, 21. janúar 2009. Ég sem rannsóknarlögreglumaður í tæknideild tilheyri ekki aðgerðarsveit eða óeirðarsveit. Deginum áður höfðum við verið beðin um að vera til taks og koma sem liðsaukar, og þá var meira og minna öll rannsóknardeildin komin í búning og með hjálm og var í Alþingisgarðinum, þar sem fólk var grýtt með eggjum, málningu slett á það og fleira í þeim dúr,” rifjar Ragnar upp.

Hér er Ragnar ásamt samstarfsmönnum sínum, þann 21. janúar 2009. Morgunblaðið/Golli/Kjartan Þorbjörnsson

Ég var sjálfur reiður

„Maður hugsaði bara að fólk væri reitt. Og maður skildi það. Það voru mikil læti og ég man enn eftir suðinu sem ég var með í eyrunum í marga daga á eftir. Þetta voru skrítnir tímar og mörg okkar voru reið. Ég var sjálfur reiður.”

Ragnar og samstarfsfólk hans í tæknideild fást við það sem fæstir munu nokkurn tímann sjá eða upplifa á lífsleiðinni, eða eins og Ragnar orðar það „við komum í aðstæður sem aðrir forðast”. Má þar til dæmis nefna sjálfsvíg, banaslys, líkamsárásir, manndráp og önnur alvarlegustu brot og atvik sem koma á borð lögreglunnar. Ragnar lýsir starfinu sem harmþrungnu en hefur lært að lifa með sorginni sem hann fæst við alla daga. Þessi tiltekni dagur, 21. janúar 2009, situr hins vegar alltaf í honum og minningarnar rifjuðust upp þegar árásin var gerð á þinghús Bandaríkjanna nýverið.

„Ég sá þessa örfáu lögreglumenn í Washington reyna að berjast við mannfjöldann með veikum mætti og hugsaði bara, æ hvað ég vona að það meiðist enginn. Og þessi dagur rifjaðist þá enn frekar upp fyrir mér.”

Úr vopnuðu ráni yfir í óeirðir

Ragnar var staddur í útkalli þegar beiðni um að vera með framvarðarsveitinni við Alþingishúsið barst.

Öllu lauslegu var grýtt í lögreglumenn sem gættu Alþingishússins.Getty

„Ég var á bakvakt en um kvöldið var ég ræstur út því það hafði verið rán í Lyfju í Lágmúla. Vopnaður maður hafði komið þangað inn og stokkið yfir afgreiðsluborðið. Sem betur fer voru ekki allir lögreglumenn þá við Alþingi, enda var ekkert í kortunum á þeim tíma. Ég var að klára mína vinnu þarna og að ganga frá þegar neyðarkall barst frá Austurvelli. Það var búið að senda nokkra óeirðarhópa í hvíld heim, en fólki var mjög heitt í hamsi, búið að kveikja elda og farið að veitast að lögreglumönnum,” útskýrir hann. Næstu skref hafi verið að bruna á lögreglustöðina á Hverfisgötu til þess að sækja búnað.

„Ég fékk til dæmis gasgrímu, stóra kylfu og hjálm en það var hvorki til skjöldur né brynja því það var allt í notkun. Ég dreif mig samt af stað og ég man hvernig hjartað byrjaði að slá hraðar þegar ég heyrði yfirmann aðgerðanna segja „við erum að fara að nota táragas til að dreifa mannfjöldanum. Þetta er að fara algjörlega úr böndunum. Ég man ég hugsaði með sjálfum mér „hvað ertu að koma þér út í. Það hefur ekki verið notað táragas síðan í mótmælunum árið 1949, Nato mótmælunum. Við erum að fara að nota gas á eigin borgara. Kannski er fólk þarna sem ég þekki”,” segir Ragnar og bætir við að þessar og alls kyns hugsanir hafi sótt á hann. Hann hafi hins vegar verið meðvitaður um að aðgerðarstjórn hafi vel verið treystandi og að hópurinn stæði allur saman.

Fólki var heitt í hamsi, kveikti elda og veittist að lögreglumönnum.Getty

Og svo breyttist vindáttin

„Ég hafði ekki sett upp gasgrímu síðan í lögregluskólanum fyrir einhverjum tuttugu árum, en ég setti talstöðina í eyrað og við gengum saman út, allur hópurinn, ákveðin í að passa upp á hvort annað og að enginn myndi slasast.

Næstu skref voru að hlusta á stjórnendur í talstöðinni. Hvar á ég að standa, ekki missa sjónar af neinu. Þetta var svolítið eins og að vera í leiðslu. Og svo sá ég sérsveitarmennina koma með gasbyssuna og heyrði hvern hvellinn á fætur öðrum. Fólkið hljóp í burt og reykurinn lagðist yfir Austurvöll. Þá héldum við að þetta væri búið í bili. En nei, svo var aldeilis ekki. Vindáttin breyttist. Táragasið hafði ekki þau áhrif sem það átti að hafa og fólkið kom öllu reiðara til baka.”

„Í staðinn fyrir að kasta í okkur skyri eða eggjum, þá var farið að grýta okkur með múrsteinum,“ segir Ragnar. Getty

Og þá beindist reiði fólks ekki síður að lögreglumönnunum sjálfum.

„Fólk losaði upp laust grjót, og í staðinn fyrir að kasta í okkur skyri eða eggjum, þá var farið að grýta okkur með múrsteinum. Við bökkum og bökkum, og vorum komin um það bil metra frá veggnum. Og tókum við öllu grjótinu sem var rigndi yfir okku. Skjaldarsveitin tók mest á skildina en svo fann ég þegar grjótinu var hent í vegginn og hvernig það endurkastaðist í bakið á okkur og lappirnar.”

Ragnar segist ómögulega geta áttað sig á því hversu lengi hópurinn tók við grjótkastinu. „Við vorum búin að vera mjög lengi. Á einum tímapunkti datt sambandið við talstöðina í eyranu á mér út. Ég leit til hliðar og sá kollega minn, sem er höfðinu hærri en ég, limpast niður. Hann lá þarna í hnipri og grjótið hélt áfram að dynja á honum.. Þetta var eins og í bíómynd, eins og örvaárás á okkur.”

Þá þurfti að hugsa hratt. Maðurinn hafði augljóslega slasast á höfði og góð ráð dýr. Lögreglumennirnir þurftu að koma hinum slasaða af staðnum, á meðan þeir gættu að eigin öryggi og slasaða samstarfsmanni þeirra.

Steinarnir sem lögreglumenn sem slösuðust fengu í sig. Ragnar fékk í sig eins og hálfs kílóa stein, sem sést fyrir hér við mælistikuna fyrir miðri mynd.  

„Við þurftum að koma honum inn í Alþingishúsið og á sama tíma reyndi ég að verja okkur með kylfunni. Skyndilega fékk ég ég fékk stóran, eins og hálfs kílóa grjóthnullung í öxlina á mér, þannig að ég missti kylfuna. Fyrsta hugsun var hins vegar sú að ég yrði að ná kylfunni svo hún færi ekki í hendurnar á röngum aðila.”

Ragnar segir samstarfsmann hans hafa vankast og slasast á höfði. Hann sneri ekki aftur í aðgerðarsveitina eftir árásina. Sjálfur meiddist Ragnar illa á öxl þetta kvöld.

„Maður kom þangað á slysadeildina, þurfti að afklæðast frá toppi til táar, allur í táragasi og skælandi út af því. Og ég hugsaði bara, þetta er það versta sem ég hef upplifað í starfinu. Ég ætla ekki að slasast eða deyja í vinnunni. Það er bara ekki í boði,” segir Ragnar, sem komst loks heim undir morgun.

„Ég kom heim um klukkan svona sex, sjö, um morguninn. Ég lagðist upp í sófa en ég gat ekki sofnað. Fjölskyldan kom síðan fram aðeins seinna, konan mín og börnin mín, og þau höfðu öll fylgst með því sem þarna gekk á í fréttunum og öllsömul áhyggjufull og illa sofin.”

Fréttirnar af árásinni á þinghúsið í Washington rifjuðu upp erfiðar minningar. Ragnar segist aldrei hafa gert upp þennan tíma, og sér eftir því að vissu leyti. Vísir/Vilhelm

Lífi okkar var ógnað

Hvernig líður þér þegar þú hugsar um þetta kvöld?

„Það er skrítið að segja það. En það blossar upp í mér reiðin. Þetta er svo súrrealískt. Ég man að ég varð reiður þegar ég horfði á fréttirnar um árásina á þinghúsið í Washington um daginn, og síðan þetta gerðist árið 2009 þá hef ég ekki getað horft á heimildarmyndir eða neitt sem sýnir frá þessu,” segir hann.

En af hverju ertu reiður?

„Það er af því að lífi okkar var ógnað. Ég er tveggja barna faðir. Ég valdi mér vinnu við rannsóknir, að upplýsa mál fyrir samfélagið. Að gæta réttlætis. Allt í einu er ég settur í þessa stöðu að hugsanlega þurfa að berja samborgara mína með kylfu, að verja hús vegna einhvers sem ég var sjálfur ekki sáttur við.”

Hvað hugsar maður í svona aðstæðum?

„Af hverju varð ég ekki bókasafnsfræðingur,” svarar Ragnar hnyttinn. 

„Nei, bara það sama og þegar maður fer í önnur verkefni. Maður þarf að gíra sig upp í þau, þarf að vera yfirvegaður, þarf að vera rólegur, og segja við sjálfan sig að þetta muni allt fara vel - að fólk muni ekki ganga of langt. Maður tyggur þessa tuggu aftur og aftur. Við erum Íslendingar, við erum ekki með þennan kúltúr. Maður heldur í jákvæðnina og hópinn. Við þurfum að passa upp á okkur og upp á hvert annað. Það má ekki leyfa neikvæðum hugsunum að komast að,” segir hann.

„En auðvitað hugsuðum við öll „hvað ef?”


Tengdar fréttir

Tíu ár frá hruni: Sáu í hvað stefndi eftir Kryddsíldarmótmælin

Þúsundir manna komu saman á Austurvelli haustið 2008 og í janúar 2009 til þess að mótmæla ríkisstjórninni, Seðlabankanum, Fjármálaeftirlitinu og bara ástandinu í þjóðfélaginu almennt. Mótmælin eru best þekkt sem Búsáhaldabyltingin eftir að mótmælendur komu saman með potta, pönnur og önnur búsáhöld og létu í sér heyra.

Svíður að stjórnvöld styðji ekki lögreglu

„Kostirnir í stöðunni eru fáir, og enginn góður. Við teljum að við höfum valið þann besta, því að öðrum kosti hefðum við þurft að mæta niðurskurðarkröfu með beinum uppsögnum,“ segir Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×