Innlent

Svíður að stjórnvöld styðji ekki lögreglu

Mikið mæddi á lögreglumönnum í búsáhaldabyltingunni. Nú hefur talsverður fjöldi lögreglumanna hætt þátttöku í óeirðasveit lögreglu. Mynd/Anton
Mikið mæddi á lögreglumönnum í búsáhaldabyltingunni. Nú hefur talsverður fjöldi lögreglumanna hætt þátttöku í óeirðasveit lögreglu. Mynd/Anton

„Kostirnir í stöðunni eru fáir, og enginn góður. Við teljum að við höfum valið þann besta, því að öðrum kosti hefðum við þurft að mæta niðurskurðarkröfu með beinum uppsögnum," segir Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.

Lögreglumenn eru ósáttir við breytingar á vaktakerfi og nýtt skipulag lögreglu á höfuðborgar­svæðinu. Í opnu bréfi Bylgju Hrannar Baldursdóttur lögreglukonu til lögreglustjóra, sem fjallað var um í Fréttablaðinu í gær, gagnrýnir hún þessar breytingar.

Í skriflegu svari lögreglustjóra segir að hann geri sér vel grein fyrir því að margir séu óánægðir, en eftir vandlega yfirlegu sé það skoðun sín að fleiri kostir séu en gallar við breytt skipulag.

„Staðan innan lögreglunnar er ekki góð nú þegar við stöndum í miklum niðurskurði," segir Stefán í samtali við Fréttablaðið. „Við getum ekki með nokkru móti kreist pott úr pelaflösku."

Fjöldi lögreglumanna hefur sagt sig úr svokölluðum mannfjöldastjórnunarhópi, óeirðasveit lögreglu. Verkefni tengd hópnum voru valkvæð fyrir lögreglumenn, og vilja þeir meðal annars mótmæla ástandinu með því að hætta þátttöku, segir Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna (LL).

Stefán hafði í gær ekki fengið upplýsingar um óeirðasveitina, en sagði að kæmi í ljós að lögreglan gæti ekki sinnt verkefnum sínum yrði að meta stöðuna.

Lögreglumenn eru stétt fagmanna sem leggur metnað í sína vinnu, og mönnum svíður að stjórnvöld styðji ekki við lögregluna, segir Snorri.

Í ályktun sem samþykkt var á fundi stjórnar LL og formanna svæðisdeilda landssambandsins á fimmtudag segir að sú staða hafi lengi verið að fækkað hafi í lögreglunni vegna ónógra fjárveitinga. Boðaður niðurskurður í lögreglunni í ár og á næsta ári muni augljóslega koma niður á þjónustustigi lögreglu um allt land, nái hann fram að ganga.

Snorri segir lögreglumenn vel meðvitaða um reiðina í samfélaginu, betur en marga aðra þar sem þeir hafi tekið við reiði fólksins í búsáhaldabyltingunni. Þeir standi í nákvæmlega sömu sporum og almenningur, með skuldir og fjárhagsvanda eins og aðrir.

„Lögreglumenn velta því nú alvarlega fyrir sér […] hvorum megin línunnar þeir muni standa komi til annarrar „búsáhaldabyltingar" í haust eða vetur," segir í ályktun stjórnar LL.

Með þessu eru lögreglumenn ekki að hóta að hlýða ekki fyrirmælum, enda geta lögreglumenn ekki neitað að sinna þessum verkefnum, segir Snorri. En menn velti því fyrir sér hvers vegna þeir ættu að taka við slíkum svívirðingum aftur, myndist svipað ástand á ný.

Ekki náðist í Rögnu Árnadóttur dómsmálaráðherra í gær.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×