Erlent

Hafa loksins leyst úr mestu flækjunni við Súes­­skurðinn

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Ever Given sat fast þversum í Suez-skurðinum í sex daga. 
Ever Given sat fast þversum í Suez-skurðinum í sex daga.  EPA/SUEZ CANAL AUTHORITY

Loks hefur endanlega tekist að leysa úr mestu flækjunni sem skapaðist í og við Súesskurðinn þegar flutningaskipið Ever Given festist þversum í skipaskurðinum. Yfir fjögur hundruð skip sátu föst á meðan unnið var að því að losa Ever Given sem festist í skurðinum þann 23. mars og sat fast í nokkra daga.

Nú, fimm dögum eftir að það tókst að losa skipið, hefur öllum ríflega fjögur hundruð skipunum, loks tekist að komast leiðar sinnar um skurðinn. BBC greinir frá og hefur eftir egypskum yfirvöldum sem hafa umsjón með umferð um Súesskurðinn.

Yfirvöld segja aftur á móti að ekki hafi endanlega tekist að vinda ofan af umferðarteppunni enn sem komið er. Rannsókn á atvikinu er hafin og er gert ráð fyrir því að niðurstöður rannsóknarinnar verði gerðar opinberar í næstu viku. Niðurstöðurnar geta haft mikla þýðingu fyrir hugsanleg málaferli vegna málsins en atvikið hefur haft í för með sér gífurlegt tjón fyrir ótal hagsmunaaðila.

Um tólf prósent allra vöruflutninga í heiminum fara um Súesskurðinn en um hann liggur stysta mögulega siglingaleiðin á milli Asíu og Evrópu. Það reyndist mikið og erfitt verk að losa Ever Given, sem vegur um 220 þúsund tonn, en það tókst loks á mánudaginn. Eftir að það tókst gat umferð um skipaskurðinn loksins hafist að nýju en í dag sigldu 85 flutningaskip um skurðinn til beggja átta. Þeirra á meðal voru síðasta 61 skipið af þeim 422 sem höfðu setið föst í biðröð á meðan unnið var að því að losa Ever Given.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.