Erlent

Lög­reglu­maður drepinn í á­rásinni á þing­húsið

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Yogananda Pittman, lögreglustjóri í þinghúsinu, tilkynnir andlát Evans.
Yogananda Pittman, lögreglustjóri í þinghúsinu, tilkynnir andlát Evans. Drew Angerer/Getty

William Evans, lögreglumaður hjá bandaríska þinghúsinu, var drepinn í árás sem gerð var fyrir utan þinghúsið í dag. Hann, ásamt öðrum lögreglumanni, varð fyrir bíl sem ekið var á þá við öryggistálma fyrir utan þinghúsið í dag.

Evans hafði starfað sem lögreglumaður hjá þinghúsinu í átján ár þegar hann var drepinn.

Evans og annar lögreglumaður urðu fyrir fólksbíl sem keyrt var á þá við þinghúsið á öðrum tímanum, að staðar tíma, í dag. Árásarmaðurinn var skotinn af lögreglu í árásinni og liggur nú í lífshættu á sjúkrahúsi. Eftir að tilkynnt var um dauða Evans stóðu lögreglumenn heiðursvörð um göturnar í kring um þinghúsið til að heiðra Evans. 

Árásarmaðurinn er karlmaður og virðist hafa verið einn að verki í árásinni. Hann hefur aldrei fyrr komið við sögu lögreglu samkvæmt frétt CBS News.

Þinghúsinu og nærliggjandi svæði var lokað í kjölfar árásarinnar og var starfsmönnum bæði bannað að fara inn og út úr byggingum. Um tveimur tímum síðar var lokuninni aflétt en löggæsluaðilar eru í viðbragðsstöðu við húsið.

Þjóðvarðliðið og Alríkislögreglan eru í viðbragðsstöðu við þinghúsið.AP Photo/J. Scott Applewhite

Bæði Alríkislögreglan og þjóðvarðliðið voru kölluð út í kjölfar árásarinnar.

Aðeins tæpir þrír mánuðir eru liðnir síðan ráðist var á þinghúsið síðast. Múgur fólks réðst inn í þinghúsið þann 6. janúar síðastliðinn og dóu fimm í þeirri árás, þar á meðal lögreglumaðurinn Brian Sicknick sem dó eftir að hafa tekist á við árásarmenn.

Miklar öryggisráðstafanir hafa verið við þinghúsið síðan árásin var gerð í janúar en farið var að slaka á þeim eftir því sem tíminn leið. Mikill viðbúnaður er í Washingtonborg og hafa tugir lögreglusveita og þjóðvarðlið verið kölluð út til þess að ganga um göturnar og rannsaka vettvang glæpsins.

Þjóðvarðlið ýmissa ríkja Bandaríkjanna voru stödd í Washington eftir árásina 6. janúar og er talið að enn séu um 2.300 þjóðvarðliðar í borginni. Áætlað var að þeir yrðu hægt og bítandi sendir aftur heim en óljóst er hvort atburðir dagsins muni breyta þeim áætlunum.


Tengdar fréttir

Þinghúsi Bandaríkjanna lokað vegna árásar

Þinghúsi Bandaríkjanna og aðliggjandi svæði í Washington DC hefur verið lokað eftir að bifreið var ekið á tvo lögreglumenn við öryggistálma fyrir utan þinghúsið. Hinn grunaði var skotinn af lögreglumönnum eftir að hann steig út úr bifreiðinni með kuta á lofti.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.