Innlent

Alltaf sömu karlarnir því það hættir enginn

Kristján Már Unnarsson skrifar
Sturla Þórðarson, skipstjóri á Beiti NK.
Sturla Þórðarson, skipstjóri á Beiti NK. Sigurjón Ólason

Það er enginn undir þrítugu í áhöfn Beitis NK, skipi Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, og sá elsti á dekki er 65 ára. Áður fyrr var algengt að sautján-átján ára gamlir strákar væru á loðnuveiðunum.

„Þetta eru alltaf sömu karlarnir, í tíu-tuttugu ár. Það hættir enginn,“ segir Sturla Þórðarson skipstjóri í þættinum Um land allt á Stöð 2. Þar er fylgst með loðnuveiðum þar sem skipin eru í mokfiskeríi í norðanverðum Faxaflóa á síðustu dögum vertíðarinnar.

Víðir Pálsson háseti.Sigurjón Ólason

Tveir eru um hvert pláss. Sjómennirnir vinna í skiptikerfi, vinna bara hálft árið, en hafa samt góðar tekjur. Þetta eru raunar einhver eftirsóttustu plássin í fiskveiðiflotanum.

„Þetta þykja mjög góð pláss á þessum uppsjávarskipum. Það er bara þannig,“ segir Víðir Pálsson háseti, sem er að verða fimmtugur en hann byrjaði sextán ára gamall á sjó.

Helgi Freyr Ólason háseti.Sigurjón Ólason

„Við erum með gott skip og góðan aðbúnað,“ segir Helgi Freyr Ólason, sem er búinn að vera sjómaður í fimmtán ár.

„Þetta er það öflugasta á Íslandi, það stærsta,“ segir Guðjón Sveinsson, fyrsti vélstjóri, um fiskiskipið en tveir vélstjórar eru ávallt um borð í hverri ferð.

Guðjón Sveinsson, fyrsti vélstjóri.Sigurjón Ólason

„Við komum með stærstu farmana, getum komið með 3.200 tonn í einni ferð. Getum verið að punda út á skrúfu tíu þúsund hestöflum, með aðalvél og svo ljósavél inn á líka,“ segir vélstjórinn.

Herbert Jónsson yfirstýrimaður.Sigurjón Ólason

„Það eru allir rosagóðir vinir hérna. Það skiptir ekki máli hvað gengur á hérna. Það er alltaf sama stemmningin, sko. Þeir eru kátir hérna,“ segir Herbert Jónsson yfirstýrimaður.

Hér má sjá sex mínútna myndskeið úr þættinum:


Tengdar fréttir

Höfum öll ofboðslega gott af því að finna hvað heldur okkur gangandi

„Það er bara gaman að vinna á vertíð. Það eru vaktir. Það er fjör. Þú finnur það að þú ert að bjarga verðmætum og að þetta skiptir máli. Ég held að við höfum öll bara ofboðslega gott af því að vera svona með puttann á púlsinum á því hvað heldur okkur gangandi,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, um eigin reynslu af því að vinna á loðnuvertíð.

Loðnu­ver­tíðin á loka­metrunum: „Ævin­týra­legt fis­kerí“

„Þetta er eiginlega búið að vera ævintýralegt fiskerí,“ sagði fréttamaðurinn Kristján Már Unnarsson í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld þar sem hann var staddur um borð í Beiti NK-123. Veiðin hefur gengið vel og er Beitir kominn með næstum 1.500 tonn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×