Fótbolti

Bale hrósað fyrir að gefa meintum rasista olnbogaskot

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gareth Bale sýndi rasismanum rauða spjaldið í gær, allavega með táknrænum hætti.
Gareth Bale sýndi rasismanum rauða spjaldið í gær, allavega með táknrænum hætti. getty/Simon Stacpoole

Venjulega fá leikmenn skömm í hattinn fyrir að gefa mótherja olnbogaskot. Viðbrögð við olnbogaskoti Gareths Bale í leik Wales og Tékklands í undankeppni HM 2022 í gær voru hins vegar allt önnur.

Bale kom mikið við sögu í leiknum í Cardiff í gær. Hann fékk besta færi Walesverja í fyrri hálfleik og lagði svo eina mark leiksins upp fyrir Daniel James á 82. mínútu.

Stoðsendingin féll samt í skuggann af olnbogaskoti sem Bale gaf Tékkanum Ondrej Kúdela skömmu eftir að James skoraði.

Kúdela hefur verið mikið í fréttum að undanförnu eftir að hann var sakaður um að hafa beitt Glenn Kamara kynþáttaníði í leik Rangers og Slavia Prag í Evrópudeildinni.

Fyrir leikinn hituðu leikmenn Wales upp í stuttermabolum með orðunum „sýnum rasisma rauða spjaldið.“

Bale sýndi stuðning sinn líka í verki með því að gefa Kúdela olnbogaskot sem var greinilega viljandi. Bale leit aftur fyrir sig áður en hann stökk upp og virtist alveg meðvitaður um hvar Kúdela var.

Upphaflega átti Kúdela ekki að spila leikinn í gær. Slavia Prag vildi ekki að hann ferðaðist til Wales þar sem félagið óttaðist um öryggi hans. Það gaf hins vegar eftir á endanum og Kúdela var í byrjunarliði Tékka í gær. Hann fór af velli eftir olnbogaskotið frá Bale.

Með sigrinum í gær fékk Wales sín fyrstu stig í E-riðli undankeppninnar. Walesverjar eru í 3. sæti hans með þrjú stig, einu stigi á eftir Tékkum sem hafa leikið einum leik meira.


Tengdar fréttir

Daniel James hetja Wa­les | Belgía skoraði átta

Tveir leikir fóru fram í E-riðli í undankeppni HM 2022 í knattspyrnu í kvöld. Wales vann mikilvægan 1-0 sigur á Tékklandi þökk sé marki Daniel James. Þá vann Belgía einstaklega þægilegan 8-0 sigur á Hvíta-Rússlandi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.