Daniel James hetja Wa­les | Belgía skoraði átta

James fagnar sigurmarki sínu í kvöld.
James fagnar sigurmarki sínu í kvöld. Marc Atkins/Getty Images

Tveir leikir fóru fram í E-riðli í undankeppni HM 2022 í knattspyrnu í kvöld. Wales vann mikilvægan 1-0 sigur á Tékklandi þökk sé marki Daniel James. Þá vann Belgía einstaklega þægilegan 8-0 sigur á Hvíta-Rússlandi.

Í Cardiff í Wales voru Tékkar í heimsókn í leik sem gæti reynst einkar mikilvægur þegar undankeppnin klárast. Eftir markalausan fyrri hálfleik fékk Patrik Schick beint rautt spjald á 50. mínútu og Tékkarnir því manni færri það sem eftir lifði leiks.

Eða svona næstum, Connor Roberts fékk tvö gul á sömu mínútunni og lét senda sig í sturtu á 77. mínútu leiksins. Fimm mínútum síðar kom svo sigurmarkið.

Gareth Bale lék þá á Vladimir Coufal og sendi fullkomna sendingu inn á teig þar sem Daniel James stangaði knöttinn af öllu afli í netið og staðan orðin 1-0. Undir lokin átti Joe Rodon stórkostlega björgun sem kom að öllum líindum í veg fyrir mark og leikmenn Wales fögnuðu ógurlega þegar flautan gall skömmu síðar.

Þessir tveir voru á skotskónum í kvöld.EPA-EFE/Olivier Hoslet

Leikur Belgíu og Hvíta-Rússlands var öllu ófjafnari. Það tók heimamenn í Belgíu aðeins fjórtán mínútur að brjóta ísinn og þremur mínútum síðar var staðan orðin 2-0. Íslandsbaninn Michy Batshuayi kom toppliði heimslistans á bragðið og Hans Vanaken tvöfaldaði forystuna.

Staðan var orðin 4-0 áður en fyrri hálfleik lauk Leandro Trossard bætti við þriðja markinu og Jeremy Doku því fjórða.

Dennis Praet skoraði svo fimmta mark Belga í upphafi síðari hálfleiks og Christian Benteke bætti við því sjötta þegar tuttugu mínútur lifðu leiks. Heimamenn voru þó alls ekki hættir en Trossard og Vanaken bættu báðir við öðru marki sínu áður en leikurinn var flautaður af.

Lokatölur 8-0 Belgíu í vil.

Belgar eru á toppi E-riðils með sjö stig að loknum þremur leikjum. Þar á eftir kemur Tékkland með fjögur stig að loknum þremur leikjum en bæði Wales og Hvíta-Rússland er með þrjú stig eftir tvo leiki. Eistland rekur svo lestina án stiga.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira