Fótbolti

Kolbeinn handarbrotnaði gegn Armeníu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson varð fyrir því óláni að handarbrotna gegn Armeníu í fyrradag.
Kolbeinn Sigþórsson varð fyrir því óláni að handarbrotna gegn Armeníu í fyrradag. vísir/vilhelm

Kolbeinn Sigþórsson verður ekki með íslenska landsliðinu í leiknum gegn Liechtenstein á morgun. Hann handarbrotnaði í 0-2 tapinu fyrir Armeníu á sunnudaginn.

Ísland missti þrjá leikmenn út eftir leikinn í Armeníu. Ragnar Sigurðsson og Kolbeinn meiddust og Albert Guðmundsson fékk sitt annað gula spjald í undankeppni HM og verður því í banni gegn Liechtenstein annað kvöld.

„Raggi meiddist í upphitun og Kolli braut á sér höndina. Albert er í banni. Þessir þrír eru úti,“ sagði Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari á blaðamannafundi í dag. 

Auk þremenninganna er enn óvíst með þátttöku nokkurra annarra leikmanna. 

„Það eru enn 2-3 spurningamerki varðandi leikmenn sem fengu högg eða spark, eða lentu illa. Þeir eru að jafna sig,“ sagði Arnar. 

Íslenska liðið kom til Sviss frá Armeníu í gærkvöldi. Þar hitti það fyrir leikmennina fjóra sem Arnar kallaði í úr U-21 árs landsliðinu. Þetta eru þeir Ísak Bergmann Jóhannesson, Sveinn Aron Guðjohnsen, Willum Þór Willumsson og Jón Dagur Þorsteinsson en Arnar þekkir þá vel eftir að hafa þjálfað þá í U-21 árs liðinu.

„Hlutverk þeirra er eins og fyrir alla, að vera hluti af þessum leikmannahópi á móti Liechtenstein. Byrjunarliðið verður tilkynnt í fyrramálið. Þeir þekkja sína stöðu hjá mér og eiga auðvelt með að koma inn en hvert hlutverk þeirra verður skýrist á morgun,“ sagði Arnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×