Þetta segja nokkrir af helstu leiðtogum heimsins í grein sem þau birta í blöðum víðsvegar um heim. Greinina undirrita meðal annarra Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, Angela Merkel Þýskalandskanslari, Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs.
Leiðtogarnir lýsa kórónuveirufaraldrinum sem stærstu áskorun heimsbyggðarinnar síðan á fimmta áratug síðustu aldar þegar heimsstyrjöldin síðari var háð.
Að þeim hildarleik loknum hafi Sameinuðu þjóðirnar verið stofnaðar til að draga úr líkum á annarri heimstyrjöld og segja leiðtogarnir að nú sé aftur kominn tími til að efla samstöðu heimsbyggðarinnar allrar til að tryggja að hægt verði að bregðast við komandi farsóttum með áhrifaríkari hætti sem gagnist öllum þjóðum heims, stórum sem smáum.
„Enginn er öruggur fyrr en allir eru orðnir öruggir," segja leiðtogarnir.
Það eru 24 leiðtogar sem standa að baki ákallinu ásamt Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóra Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, en greinarnar birtast meðal annars í breska blaðinu Telegraph, franska blaðinu Le Monde og þýska blaðinu Frankfurter Allgemeine Zeitung.