Erlent

Maxwell á­kærð fyrir man­sal í fyrsta sinn

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Maxwell hefur sagst saklaus af því að hafa hjálpað Epstein með því að lokka unglingsstúlkur sem Epstein og vinir hans misnotuðu kynferðislega.
Maxwell hefur sagst saklaus af því að hafa hjálpað Epstein með því að lokka unglingsstúlkur sem Epstein og vinir hans misnotuðu kynferðislega. EPA/Jason Szenes

Ghislaine Maxwell, samverkakona og fyrrverandi kærasta auðkýfingsins Jeffrey Epstein, var í dag ákærð fyrir að hafa selt ólögráða barn í mansal. Hún er sökuð um að hafa fengið fjórtán ára stúlku til þess að taka þátt í kynferðislegum athöfnum með Epstein og að hafa síðan greitt stúlkunni fyrir.

Í ákærunni kemur fram að stúlkan hafi á árunum 2001 til 2004 ítrekað nuddað Epstein á heimili hans í Palm Beach í Flórída þar sem hann var ávallt nakinn. Hann hafi í þessum nuddum ítrekað brotið kynferðislega á stúlkunni.

Í fyrri ákærum hefur Maxwell verið sökuð um að hafa hjálpað Epstein við að komast í samband við stelpurnar, þjálfa þær og síðar hjálpað honum við að kynferðislega misnota þær. Maxwell hefur aldrei áður verið ákærð fyrir mansal (e. sex-trafficking).

Í ákærunni kemur einnig fram að stúlkan hafi nuddað Epstein en að Maxwell, og aðrir sem störfuðu fyrir Epstein, hafi greitt stúlkunni hundruð Bandaríkjadala fyrir „þjónustuna“.

Maxwell hefur setið í gæsluvarðhaldi í tæpa níu mánuði og hefur hún neitað sök í öllum ákærum. hún hefur meðal annars verið ákærð fyrir að hafa tælt fjölda barnungra stúlkna – sú yngsta 14 ára – fyrir hönd Epsteins. Maxwell er einnig sögð hafa spilað stórt hlutverk í ofbeldinu sem stúlkurnar urðu fyrir.

Í ákærunni sem birt var í dag er minnst á aðra fjórtán ára stúlku sem einnig varð fyrir barðinu á Maxwell. Ekki er ljóst fyrir hvers konar ofbeldi hún varð fyrir. Þá segir einnig í ákærunni að Epstein og Maxwell hafi hvatt stúlkurnar til þess að fá fleiri stelpur til þess að nudda Epstein.

Þá kemur fram að fyrsta stúlkan hafi fengið fjölda kvenna og stúlkna til þess að veita Epstein „erótísk“ nudd, eins og segir í ákærunni, og hafi þær allar fengið hundruð dali borgaða fyrir hvert nudd.

Epstein var sjálfur ákærður fyrir að hafa misnotað tugi kvenna og stúlkna en áður en mál hans fór fyrir dóm tók hann eigið líf í ágúst 2019.


Tengdar fréttir

Brúnt vatn og óætur matur: Líkir fangavistinni við pyntingar

Það er niðurlægjandi hvernig farið er með Ghislaine Maxwell í fangelsinu í New York, segir bróðir hennar Ian Maxwell. Hann líkir fangavistinni við pyntingar en Maxwell hefur verið sökuð um að hafa útvegað vini sínum Jeffrey Epstein stúlkur undir lögaldri.

Notuðust við far­síma­gögn til að finna Maxwell

Alríkislögreglan í Bandaríkjunum hafði uppi á Ghislaine Maxwell, aðstoðarkonu og fyrrverandi kærustu Jeffrey Epstein, með því að rekja staðsetningu farsíma hennar. Maxwell var handtekinn þann 2. júlí á síðasta ári í aðgerðum lögreglu á heimili hennar í New Hampshire í Bandaríkjunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×