Fótbolti

Dagný og María mættust á Old Trafford

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Dagný fékk gott færi til að skora á Old Trafford. María Þórisdóttir náði ekki að komast fyrir skot Dagnýjar.
Dagný fékk gott færi til að skora á Old Trafford. María Þórisdóttir náði ekki að komast fyrir skot Dagnýjar. vísir/Getty

Það var boðið upp á Íslendingaslag í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag á einu stærsta sviði fótboltans, Old Trafford.

Þar áttust við kvennalið Manchester United og West Ham og voru þær María Þórisdóttir og Dagný Brynjarsdóttir í sitt hvoru byrjunarliðinu.

Dagný lék fyrstu 80 mínútur leiksins fyrir West Ham á meðan María lék allan leikinn í vörn Manchester United.

Fyrri hálfleikur var markalaus en Lauren James kom heimakonum yfir snemma í síðari hálfleik eftir stoðsendingu Maríu, sem á íslenska foreldra en leikur fyrir Noreg. 1-0 varð 2-0 þegar bandaríska landsliðskonan Christen Press tvöfaldaði forystu heimakvenna.

Ekki urðu mörkin fleiri og öruggur 2-0 sigur Man Utd staðreynd. Með sigrinum styrkti Man Utd stöðu sína í 3.sæti deildarinnar en Dagný og stöllur hennar í West Ham sitja á botninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×