Erlent

Stjórnendur vissu að bílstjórar væru að pissa í flöskur og kúka í poka

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
epa

Það vakti mikla athygli, og hafði raunar þveröfug áhrif, þegar Amazon tísti á dögunum að það væri ekki satt að bílstjórar fyrirtækisins neyddust til þess að pissa í flöskur. 

Tístið var það fyrsta sem margir heyrðu af málinu en nú er komið í ljós að það er ekki bara rétt að hlandfullar flöskur sé að finna í sendibifreiðum Amazon, heldur vissu stjórnendur fyrirtækisins af því.

Þeir vissu einnig að saur hefði fundist í pokum.

Í tölvupósti sem lekið var til Intercept virðist stjórnandi vera að skamma undirmenn í kjölfar þess að kúkur fannst í Amazon-poka í sendibifreið.

„Þetta er í þriðja sinn á síðustu tveimur mánuðum þar sem pokum með kúk hefur verið skilað á stöðina. Við höfum skilning á því að ökumenn kunna að lenda í neyðartilvikum á ferðinni, og sérstaklega í Covid, að þeir eigi erfitt með að finna salerni þegar þeir eru að keyra út. Þrátt fyrir það geta ökumenn ekki, MEGA EKKI, skila pokum með kúk á stöðina,“ sagði í póstinum frá því í maí 2020.

Þá segir einnig að það hafi aukist að alls kyns ógeðfellt rusl hafi fundist í pokum í bílunum, svo sem notaðar grímur og hanskar, og þvag í flöskum.

Starfsmenn hafa ekki tíma til að pissa á meðan eigendurnir auðgast

Þrátt fyrir staðhæfingar stjórnenda Amazon um að fyrirtækið sé góður vinnustaður sem sjái vel um starfsfólk sitt hafa fréttir löngum bent til annars. Starfsmenn eru oft ráðnir til afar skamms tíma, eiga afar takmörkuð réttindi og þá hefur ítrekað verið greint frá ómanneskjulegu álagi.

Í Alabama berjast starfsmenn nú fyrir því að stofna eigið stéttarfélag.

The Guardian hefur rætt við bílstjóra sem segjast neyðast til að pissa í vatnsflöskur á hverjum degi, bara til að ná settum útkeyrsluviðmiðum. Ástandið ku hafa versnað eftir að heimsfaraldur SARS-CoV-2 skall á en á einum ársfjórðungi árið 2020 jókst sala Amazon um 37 prósent.

Á sama tíma og starfsmenn veigra sér við því að taka klósettpásur vegna álags, hefur auður stofnanda Amazon aukist um 70 milljarða Bandaríkjadala.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×