Erlent

Skutu sjö ára barn til bana í Búrma

Kjartan Kjartansson skrifar
Öryggissveitir í Búrma hafa gengið hart fram gegn mótmælendum eftir að herinn rændi lýðræðislega kjörna ríkisstjórn landsins völdum í febrúar.
Öryggissveitir í Búrma hafa gengið hart fram gegn mótmælendum eftir að herinn rændi lýðræðislega kjörna ríkisstjórn landsins völdum í febrúar. Vísir/EPA

Lögreglumenn herforingjastjórnarinnar í Búrma (Mjanmar) eru sagðir hafa skotið sjö ára gamla stúlku til bana við húsleit á heimili hennar í borginni Mandalay. Stúlkan er talin yngsta fórnarlamb blóðugrar herferðar stjórnarinnar gegn öllu andófi í landinu.

Fjölskylda stúlkunnar segir breska ríkisútvarpinu BBC að lögreglumenn hafi leitað í öllum húsum í hverfinu þeirra síðdegis í gær. Þeir hafi brotið upp dyrnar og spurt faðir stúlkunnar hvort að aðrir væru á heimilinu. Hann hafi svarað neitandi en lögreglumennirnir hafi ekki trúað honum og byrjað að leita í íbúðinni.

Þegar Khin Myo Chit, sjö ára, hljóp að föður sínum til að sitja í fangi hans skutu lögreglumennirnir hana banasári. Faðir hennar segir að hún hafi látist um hálftíma síðar á meðan ekið var með hana til læknis. Hann sakar lögreglumennina um að hafa barið og handtekið nítján ára bróður stúlkunnar.

Herforingjastjórnin hefur ekki tjáð sig um dauða stúlkunnar. Stjórnin segir að 164 hafi verið drepnir á mótmælum í kjölfar valdaráns hersins 1. febrúar. Mannréttindasamtök telja raunverulegan fjölda látinna að minnsta kosti 261. Samtökin Björgum börnunum segja að tuttugu börn séu á meðal þeirra sem hafa verið drepnir.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×