Enski boltinn

Solskjær varði ákvörðun sína að hvíla Bruno í gær: Hann er manneskja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United ræðir hér við Bruno Fernandes.
Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United ræðir hér við Bruno Fernandes. Getty/Matthew Peters

Manchester United datt út úr enska bikarnum í gærkvöldi en margir gagnrýndi knattspyrnustjórann Ole Gunnar Solskjær fyrir það að nota ekki sinn besta mann á móti Leicester.

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, horfði upp á sína menn detta úr enska bikarnum í gær og missa af undanúrslitaleik á móti Southampton. Athygli vakti að besti leikamaður United á tímabilinu var ekki í byrjunarliðinu í þessum úrslitaleik.

Bruno Fernandes hefur verið frábær á þessu tímabili og oft gert útslagið í jöfnum leikjum. Stuðningsmenn Manchester United söknuðu þess að sjá hann ekki byrja þegar liðið var komið svona langt í enska bikarnum.

Kelechi Iheanacho skoraði tvö mörk fyrir Leicester City og Youri Tielemans skoraði þriðja markið í 3-1 sigri á Manchester United í átta liða úrslitum enska bikarsins. Leicester er því komið í undanúrslitin í fyrsta sinn 1982 eða í 39 ár.

Solskjær sagði eftir leikinn að Bruno Fernandes hafi þurft á hvíld að halda og þess vegna hafi hann byrjað á bekknum. Bruno kom inn á sem varamaður á 64. mínútu en þá var staðan 2-1 fyrir Leicester.

Bruno Fernandes er með 23 mörk og 13 stoðsendingar í 45 leikjum með Manchester United í öllum keppnum á leiktíðinni.

Að mati Solskjær var hinn 26 ára gamli Bruno búinn að spila of mikið af fótbolta þegar kom að leiknum í gær.

„Hann er manneskja og hann er búinn að spila leik á þriggja eða fjögurra daga fresti allt tímabilið,“ sagði Ole Gunnar Solskjær.

„Ég veit að Bruno vill alltaf spila en stundum þar maður að taka erfiða ákvörðun sem er sú besta fyrir bæði hann og liðið,“ sagði Solskjær.

Bruno Fernandes kom inn á fyrir Hollendinginn Donny van de Beek á 64. mínútu en tókst ekki að breyta gangi leiksins á síðustu 26 mínútunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×