Fótbolti

Bamford vonast til að spila á EM í sumar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Patrick Bamford hefur átt gott tímabil í Ensku Úrvalsdeildinni.
Patrick Bamford hefur átt gott tímabil í Ensku Úrvalsdeildinni. Naomi Baker/Getty Images

Patrick Bamford skoraði eitt og lagði upp annað í sigri Leed gegn Fulham í gærkvöldi. Bamford hefur nú skorað 14 mörk í deildinni á þessu tímabili, en Harry Kane er eini enski framherjinn sem hefur skorað meira.

Patrick Bamford minnti Gareth Southgate heldur betur á sig þegar hann skoraði eitt og lagði upp annað í sigri liðsins í gærkvöldi. Daginn áður hafði Southgate skilið Bamford eftir í vali sínu á enska landsliðshópnum sem tekur þátt í fyrstu leikjum undankeppni HM.

„Ég þarf bara að halda áfram að leggja hart að mér og sjá hvort að nafnið mitt komi upp í umræðunni um Evrópumeistaramótið,“ sagði Bamford. „Ef ég held áfram að spila eins og ég hef verið að gera held ég að ég eigi möguleika.“

Bamford spilaði með Leeds í Championship deildinni á seinasta tímabili, og á erfitt með að trúa hversu hratt hlutirnir geta gerst.

„Ef þú hefðir sagt mér í upphafi tímabilsins að ég myndi eiga möguleika á landsliðssæti myndi ég segja þér að þú værir galinn.“

Hann segist þó ekki vera að hugsa of mikið um þetta.

„Ef tækifærið kemur, þá kemur það. Ef ekki þá veit ég að ég gerði mitt besta. Ég hafði þetta kannski aðeins í huga í leiknum. Það gefur manni smá auka kraft.“

Leeds færðu sig upp í 11.sæti með sigrinum og eru með 39 stig, langt frá fallsæti og í góðum málum á sínu fyrsta tímabili í deild þeirra bestu í mörg ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×