AP segir frá því að stjórnarandstaðan í Armeníu hafi farið fram á að Pashinyan segi af sér embætti áður en kosningarnar fara fram.
Pashinyan tilkynnti í byrjun mánaðar að hann væri reiðubúinn að flýta kosningum til að binda enda á því ástandi sem uppi væri í armenskum stjórnmálum síðustu vikur og mánuði eftir friðarsamkomulagið við Asera sem gert var fyrir milligöngu Rússa í kjölfar átakanna um héraðið Nagorno-Karabakh.
Stjórnarandstaðan í Armeníu hefur krafist afsagnar Pashinyan vegna friðarsamkomulags frá í nóvember sem stór hluti armensku þjóðarinnar leit á sem fullkomna uppgjöf og ósigur. Talið er að þúsundir hafi fallið í átökunum, en samkvæmt friðarsamkomulaginu létu Armenar stórt landsvæði af hendi.
Pashinyan viðurkenndi í byrjun mánaðar að hafa gert mistök í tengslum við átökin við Asera og sömuleiðis í deilu sinni við hershöfðingja landsins sem hann sakaði suma um tilraun til valdaráns.
Pashinyan hefur gegnt embætti forsætisráðherra Armeníu frá maímánuði 2018.
Þingkosningar áttu upphaflega að fara næst fram í landinu árið 2023.