Erlent

Pashinyan boðar til kosninga

Atli Ísleifsson skrifar
Nikol Pashinyan ávarpaði stuðningsmenn sína á Lýðveldistorginu í Jerevan í byrjun mánaðar. Hann hefur gegnt embætti forsætisráðherra Armeníu frá maímánuði 2018.
Nikol Pashinyan ávarpaði stuðningsmenn sína á Lýðveldistorginu í Jerevan í byrjun mánaðar. Hann hefur gegnt embætti forsætisráðherra Armeníu frá maímánuði 2018. EPA/NAREK ALEKSANYAN

Nikol Pashinyan, forsætisráðherra Armeníu, boðaði í morgun til þingkosninga í landinu sem eiga að fara fram 20. júní. Mikil spenna og óvissa hefur verið í armenskum stjórnmálum síðustu mánuði eftir hin vopnuðu átök Armena og Asera um Nagorno-Karabakh.

AP segir frá því að stjórnarandstaðan í Armeníu hafi farið fram á að Pashinyan segi af sér embætti áður en kosningarnar fara fram.

Pashinyan tilkynnti í byrjun mánaðar að hann væri reiðubúinn að flýta kosningum til að binda enda á því ástandi sem uppi væri í armenskum stjórnmálum síðustu vikur og mánuði eftir friðarsamkomulagið við Asera sem gert var fyrir milligöngu Rússa í kjölfar átakanna um héraðið Nagorno-Karabakh.

Stjórnarandstaðan í Armeníu hefur krafist afsagnar Pashinyan vegna friðarsamkomulags frá í nóvember sem stór hluti armensku þjóðarinnar leit á sem fullkomna uppgjöf og ósigur. Talið er að þúsundir hafi fallið í átökunum, en samkvæmt friðarsamkomulaginu létu Armenar stórt landsvæði af hendi.

Pashinyan viðurkenndi í byrjun mánaðar að hafa gert mistök í tengslum við átökin við Asera og sömuleiðis í deilu sinni við hershöfðingja landsins sem hann sakaði suma um tilraun til valdaráns.

Pashinyan hefur gegnt embætti forsætisráðherra Armeníu frá maímánuði 2018. 

Þingkosningar áttu upphaflega að fara næst fram í landinu árið 2023.


Tengdar fréttir

Pas­hin­y­an kveðst reiðu­búinn að flýta kosningum

Nikol Pashinyan, forsætisráðherra Armeníu, hefur beðið þjóð sína fyrirgefningar og kveðst reiðubúinn að flýta þingkosningum í landinu, sé það vilji þingsins. Mikil spenna og óvissa hefur verið í armenskum stjórnmálum síðustu vikur og mánuði eftir átök Armena og Asera vegna héraðsins Nagorno-Karabakh.

Her­inn kref­ur for­sæt­is­ráð­herr­a Armen­í­u um af­sögn

Forsvarsmenn hers Armeníu hafa krafist þess að Nikol Pashinyan, forsætisráðherra ríkisins, og ríkisstjórn hans láti af völdum. Pashinyan segist líta á kröfuna sem tilraun til valdaráns og hvetur hann stuðningsmenn sína til að mótmæla á götum úti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×