Innlent

Starf­semi Stjórn­stöðvar ferða­mála lokið

Atli Ísleifsson skrifar
Frá lokafundi Stjórnstöðvar ferðamála í gær.
Frá lokafundi Stjórnstöðvar ferðamála í gær. Stjórnarráðið/Golli

Starfsemi Stjórnstöðvar ferðamála er nú lokið er Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, stýrði lokafundi hennar í gær. Stjórnstöðin hefur verið starfrækt frá árinu 2015 og var ætlað að starfs í fimm ár.

Á vef stjórnarráðsins að Stjórnstöð ferðamála hafi verið samráðsvettvangur ríkisstjórnar Íslands, Sambands íslenskra sveitafélaga og Samtaka ferðaþjónustunnar og hafið störf í kjölfar ferðamálastefnu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks árið 2015.

Þar hafi verið skilgreindir sjö áhersluþættir: Samhæfing, jákvæð upplifun ferðamanna, áreiðanleg gögn, náttúruvernd, hæfni og gæði, aukin arðsemi og dreifing ferðamanna.

„Stjórnstöðinni var falið að fylgja þessum verkefnum úr hlaði og hefur hún undanfarin ár samhæft aðgerðir og útfært leiðir til að leggja þann trausta grunn sem nú er til staðar í íslenskri ferðaþjónustu. Hlutverk Stjórnstöðvar ferðamála var því meðal annars að ná utan um öran vöxt greinarinnar með skilgreiningu brýnustu forgangsmála og að tryggja samhæfingu aðgerða og framkvæmd þeirra þvert á stjórnkerfið. Með þessu var unnið að því að styrkja grunnstarfsemi ferðaþjónustunnar og styðja við frekari mótun markmiða, verkefna og aðgerða sem gætu stuðlað að framgangi greinarinnar.

Árangur af fimm ára starfsemi Stjórnstöðvar ferðamála er mikill þar sem helstu hagaðilar íslenskrar ferðaþjónustu hafa unnið saman að því að framkvæma þau krefjandi verkefni sem greinin og stjórnvöld stóðu frammi fyrir árið 2015.

Meðal samhæfingarverkefna sem hafa verið unnin á vettvangi Stjórnstöðvar ferðamála má nefna meginverkefni á borð við stofnun Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, sviðsmynda- og áhættugreiningar, ástandsmat ferðamannastaða, mótun skipulags við öflun áreiðanlegra gagna, gerð Mælaborðs ferðaþjónustunnar, mótun áfangastaðaáætlana (DMP) og undirbúning að stofnun áfangastaðastofa (DMO) í öllum landshlutum, mótun Framtíðarsýnar og leiðarljóss íslenskrar ferðaþjónustu til 2030 og þróun Jafnvægisáss ferðamála sem nú hefur verið birtur,“ segir í tilkynningunni.

Hörður Þórhallsson var árið 2015 ráðinn framkvæmdastjóri Stjórnstöðvar ferðamála, en hann lét af störfum árið 2016. Óskar Jósefsson stýrði svo Stjórnstöðinni frá 2016 þar til nú.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×