Varðskipið Þór dró Baldur að Stykkishólmi. Þar tók hafsögubáturinn Fönix við drættinum og kom Baldri til hafnar. Til að gæta fyllsta öryggis var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út.
Ferjan varð vélarvana mitt á milli Flateyjar og Stykkishólms um hálf þrjú leytið í gær. Fólkið sem fast var um borð í skipinu var þannig á sjó í rúman sólarhring.
Uppfært klukkan 14:14:
Gunnlaugur Grettisson framkvæmdastjóri Sæferða, sem gera út ferjuna, segir í samtali við fréttastofu að allir farþegar séu komnir frá borði. Hann segir fólk hafa sýnt málinu skilning en auðvitað hefði mikið ónæði af þessu hlotist.

Fréttin hefur verið uppfærð.