Erlent

Fundu lík í leitinni að Söruh Everard

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar við leit í skógi í Ashfort.
Lögregluþjónar við leit í skógi í Ashfort. Getty/Leon Neal

Breskir lögregluþjónar hafa fundið lík í leitinni að Söruh Everard. Líkið fannst í skógi í Ashford, suðaustur af Lundúnum. Lögregluþjónn er grunaður um að hafa rænt henni og myrt hana en hún hvarf þann 3. mars þegar hún var á leið heim eftir heimsókn til vinafólks.

Í yfirlýsingu frá Cressidu Dick, yfirmanni lögreglunnar í Lundúnum, segir að ekki sé búið að staðfesta að um lík Everard sé að ræða. Fjölskyldu hennar hafi þó verið boðinn stuðningur á þessum erfiða tímum.

Lögregluþjónn í lögreglu Lundúna var handtekinn í Kent í gær, nærri staðnum þar sem lík hefur fundist. Hann var upprunalega handtekinn grunaður um mannrán en var svo handtekinn aftur í dag vegna gruns um morð.

Auk hans var kona handtekin sem grunuð er um að hafa aðstoðað hann.

Dick segir að hún og aðrir lögregluþjónar Lundúna séu miður sín vegna handtöku lögregluþjónsins. Það sé þeirra starf að tryggja öryggi almennings á götum borgarinnar.

Þá segist hún skilja að íbúar svæðisins þar sem Sarah hvarf séu óttaslegnir en ítrekar að mannrán sem þessi séu einstaklega sjaldgæf í Lundúnum og að lögreglan muni auka viðveru sína á svæðinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×