Erlent

Taka aftur upp skógar­högg í Bi­a­lowi­eza-frum­skóginum

Atli Ísleifsson skrifar
Þúsundir dýrategunda eiga búsvæði sitt í Bialowieza þar sem vistkerfið hefur verið svo gott sem óraskað í rúm 10 þúsund ár.
Þúsundir dýrategunda eiga búsvæði sitt í Bialowieza þar sem vistkerfið hefur verið svo gott sem óraskað í rúm 10 þúsund ár. Getty/Natalie Skrzypczak

Pólverjar hafa ákveðið að hefja skógarhögg á ný í Bialowieza-frumskóginum í austurhluta landsins sem er að finna á Heimsminjaskrá UNESCO.

Skógurinn er að finna á landamærum Póllands og Hvíta-Rússlands, en Pólverjar deildu við Evrópusambandið um skógarhöggið á árunum 2016 og 2018. Bialowieza hefur verið skilgreindur sem síðasti frumskógur Evrópu.

Pólverjar stöðvuðu skógarhögg sitt árið 2018 eftir að Evrópudómstóllinn dæmdi að Pólverjar hefðu gerst brotlegir við Evrópulög með því að fella tré í skóginum sem væru eldri en hundrað ára gömul.

Stjórnvöld í Póllandi segja grisjunina nauðsynlega til að ryðja vegi og vernda tré frá skordýrum sem herja á börk grenitrjáa.

BBC segir frá því að pólskir embættismenn hafi síðustu misserin unnið að gerð kvótakerfis varðandi trjáfellingar í Bialowieza-frumskóginum og hafi kvótar í gær verið samþykktir fyrir tvö af þremur svæðum skógarins.

Hóta Pólverjum sektum

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur áður hótað pólskum stjórnvöldum með sektum, verði dómur Evrópudómstólsins virtur að vettugi.

Aðstoðarloftslagsmálaráðherra Póllands, Edward Siarka, segir að með samþykkt kvótakerfisins sé ekki verið að brjóta gegn dómi Evrópudómstólsins. Ekki verði ráðist í fellingar fyrr en eftir fengitíma villtra fugla og sömuleiðis yrði það ekki gert á svæðum skógarins þar sem trén eru eldri en hundrað ára.

Þúsundir dýrategurin eiga búsvæði sitt í Bialowieza þar sem vistkerfið hefur verið svo gott sem óraskað í rúm 10 þúsund ár.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×