Rukh Lviv mætti Desna í úkraínsku úrvalsdeildinni og varð að sætta sig við 4-0 tap. Ragnar lék aðeins fyrri hálfleik en staðan í hléi var 2-0. Miðað við skrif úkraínskra miðla bar Ragnar mikla ábyrgð á fyrsta marki leiksins, eftir um tuttugu mínútna leik, en hann sendi boltann á Andrii Totovytskyi í liði Desna sem þakkaði fyrir sig og lagði upp mark fyrir félaga sinn.
Eftir tapið er Rukh í 12. sæti með 13 stig, einu stigi frá 14. og neðsta sætinu en einnig aðeins fjórum stigum frá 8. sæti.
Ragnar var seldur til Rukh frá FC Köbenhavn í janúar. Keppni í Úkraínu hófst að nýju um miðjan febrúar, eftir hlé, og hefur Rukh spilað þrjá leiki síðan þá. Ragnar var ekki í leikmannahóp Rukh í fyrsta leik en svo á varamannabekknum í síðasta leik og í byrjunarliðinu í dag.
Einn leikur til viðbótar, við stórlið Dynamo Kiev, er á dagskrá hjá Rukh áður en landsleikjahlé tekur við. Ísland mætir þá Þýskalandi, Armeníu og Liechtenstein, dagana 25., 28. og 31. mars, í fyrstu leikjum sínum í undankeppni HM í Katar.