Erlent

Vill snúa aftur á K2 í sumar til að að­stoða við leit

Sylvía Hall skrifar
Fjallgöngumaðurinn Noel Hanna segir fáa fjallgöngumenn standast áskorunina sem K2 er. Allir viti þó að förin er ekki hættulaus. 
Fjallgöngumaðurinn Noel Hanna segir fáa fjallgöngumenn standast áskorunina sem K2 er. Allir viti þó að förin er ekki hættulaus.  Mynd/Aðsend

Fjallgöngumaðurinn Noel Hanna hefur boðið fram aðstoð sína ef farið verður í leitarleiðangur á K2 í sumar. Hanna ætlaði sér að komast á topp fjallsins í síðasta mánuði en sneri við þegar veður fór versnandi, skömmu áður en síðast spurðist til John Snorra og félaga hans.

John Snorri, Ali Sadpara og JP Mohr lögðu af stað á toppinn þann 4. febrúar síðastliðinn en ekkert hefur spurst til þeirra frá 5. febrúar. Þann 18. febrúar var greint frá því að þeir væru formlega taldir af hjá pakistönskum yfirvöldum.

Hanna var sjálfur á fjallinu á þessum tíma en hann ætlaði sér að verða fyrsti Írinn til þess að klífa K2 að vetrarlagi. Hann er reyndur fjallgöngumaður og hefur áður komist á topp K2 að sumarlagi og toppað Everest níu sinnum. Að hans sögn er K2 ólíkt öllum öðrum fjöllum og erfitt sé að standast áskorunina, sem allir viti að sé gríðarlega mikil.

„Þú veist þegar þú ferð af stað að ef það eru tuttugu fjallgöngumenn, þá komast sjaldnast tuttugu til baka,“ segir Hanna í samtali við breska ríkisútvarpið

Meðvitaðri um öryggi sitt

Eftir síðustu tilraun segist Hanna meðvitaðri um öryggi sitt. Sjálfur hafi hann séð búlgarskan fjallgöngumann hrapa tæplega fimm metra þegar hann reyndi að klifra niður fjallið. Fimm hafi látist í síðustu ferð hans: „Tveir eftir að hafa hrapað niður og þrír eftir að hafa farið á toppinn og ekki komið aftur,“ segir Hanna og vísar þar til John Snorra og samferðamanna hans.

Hanna segir það vera erfitt að hugsa til þeirra sem hafa látist við að klífa K2, enda hafi hann sjálfur nú horft á eftir þremur reyndum fjallgöngumönnum sem hann hafi áður klifrað með. Hann hafi þó boðið fram aðstoð sína, enda sé til umræðu að fara á fjallið þegar veðurskilyrði verða betri.

„Ég hef talað við son Ali og klifursambandið í Pakistan og sagt þeim að ég vil hjálpa við að leita að fjallgöngumönnunum,“ segir Hanna. „Það yrði sennilega um miðjan júní og til loka júlímánaðar.“


Tengdar fréttir

Minntust Johns Snorra, Ali og Juan Pablo í Skar­du

Minningarathöfn fór fram í borginni Skardu í Pakistan þar sem íbúar minntust þeirra John Snorra Sigurjónssonar, Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr, en þeirra hefur verið saknað frá 5. febrúar þegar þeir reyndu að klífa K2. Pakistönsk yfirvöld tilkynntu í gær að þeir væru formlega taldir af.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×